Ályktanir NAUST - Vorráðstefna 2011

Ráðstefna NAUST, Djúpavogi 4. júní 2011: Ályktanir

Um jákvæða þróun á Suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs
Ráðstefna NAUST, haldin á Djúpavogi 4. júní 2011, fagnar þeirri jákvæðu þróun sem orðið hefur á Suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir atbeina svæðisráðs þjóðgarðsins, sveitarstjórnar Hornafjarðar sem og landeigenda sem gengið hafa til samstarfs við þjóðgarðinn. Mikilvægt er að slíkri þróun sé fylgt eftir með fjárframlögum til að tryggja náttúruvernd og aðgerðir til að bregðast við vaxandi straumi ferðamanna.

Um stækkun Austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs
Ráðstefna NAUST, haldin á Djúpavogi 4. júní 2011, harmar þá afstöðu meirihluta sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs 3. maí 2011 að leggjast gegn tillögu umhverfisráðuneytisins um stækkun Austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs innan þjóðlendu í Krepputungu og á Brúaröræfum. Engin frambærileg rök hafa verið færð fyrir þessari afstöðu sem hamlar eðlilegri þróun þjóðgarðsins á Austursvæði hans. Ráðstefnan tekur undir með svæðisráði fyrir Austursvæði þjóðgarðsins sem mælt hefur eindregið með þessari stækkun og skorar á meirihluta sveitarstjórnarinnar að endurskoða afstöðu sína til þessa máls hið fyrsta.

Um aðgengismál á Austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs
Ráðstefna NAUST, haldin á Djúpavogi 4. júní 2011, hvetur til þess að hugað verði að aðgerðum sem tryggja aðgengi almennings að völdum stöðum á Austursvæði, jafnt ferðamannavegum, slóðum sem gönguleiðum. Stýrt aðgengi er forsenda þess að ferðaþjónusta nái að dafna í þjóðgarðinum og þar með aukin sátt. Samtímis verði hugað að gerð hringleiðar um þjóðgarðinn með viðeigandi áningarstöðum og brúm fyrir gangandi gesti.

Um náttúrufars- og fornleifaúttekt sem lið í aðalskipulagi
Ráðstefna NAUST, haldin á Djúpavogi 4. júní 2011, hvetur sveitarfélög á Austurlandi að beita sér fyrir markvissri úttekt á náttúrufari fjórðungsins og búsetuminjum sem lið í undirbúningi að vönduðu aðalskipulagi. Með skráningu náttúruminja og fornleifa fæst mikilvægur grunnur til að byggja á ákvarðanir um umhverfisvernd og þróun byggðar og atvinnulífs. Ráðstefnan bendir á Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs að frumkvæði Helga Hallgrímssonar sem lýsandi dæmi um gott framlag í þágu þess svæðis.

Um skráningu og verndun strandminja
Ráðstefna NAUST, haldin á Djúpavogi 4. júní 2011, hvetur til átaks í skráningu og verndun strandminja austanlands í samvinnu við áhugamenn og opinbera aðila og sem lið í skipulagi. Víða er að finna minjar, sem lítill gaumur hefur verið gefinn, um sjósókn, búsetu og verslun fyrr á tíð en sem auðgað geta þekkingu á lífsbaráttu horfinna kynslóða. Æskilegt er að tengja skráningu strandminja við könnun á lífríki strandsvæða og verndun og hreinsun á fjörum, meðal annars í nágrenni þéttbýlisstaða.

Um skipulag Djúpavogshrepps
Ráðstefna NAUST, haldin á Djúpavogi 4. júní 2011, óskar Djúpavogshreppi til hamingju með aðalskipulag sveitarfélagsins fyrir tímabilið 2008–2020 og þeim sem að því hafa unnið. Skipulagið ber í senn vott um framsýni og virðingu fyrir fjölbreyttu umhverfi og leggur grunn að þróun byggðar í sátt við náttúruna.

Um verndun mikilvægra votlendissvæða og tilnefningar Ramsarsvæða
Ráðstefna NAUST, haldin á Djúpavogi 4. júní 2011, fer þess á leit við Umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun að hafin verði vinna við verndun votlendis og friðlýsingar nokkurra mikilvægra búsvæða fugla og plantna. Samtímis verði unnið að tilnefningum Ramsarsvæða á grundvelli votlendisverndar á Austurlandi.
Svæðin sem um ræðir eru:
1. Álftafjörður, Hamarsfjörður með votlendissvæðum meðfram fjörðunum og votlendi og fjörur við og í Búlandsnesi, þar með talin ströndin og grunnsævi frá Starmýri um Þvottár- og Hvalnesskriður að Hvalnesi.
2. Úthérað og Húsey, votlendissvæði, tjarnir og strönd við Héraðsflóa.
3. Nípslón í Vopnafirði,
4. Lónsfjörður í Lóni
5. Hornafjörður og Skarðsfjörður ásamt mýrlendi

Um jarðminjagarð í Dyrfjöllum og nágrenni
Ráðstefna NAUST, haldin á Djúpavogi 4. júní 2011 fagnar þeim hugmyndum sem fram eru komnar um stofnun jarðminjagarðs á Úthéraði, Dyrfjöllum og Víknaslóðum og vonar að þessar hugmyndir njóti stuðnings heimamanna og stjórnvalda svo þetta einstaka og fjölbreytta svæði megi sem fyrst verða að viðurkennt sem náttúrugersemi sem beri að varðveita fyrir komandi kynslóðir.