Lög NAUST. Náttúrusamtök Austurlands, nattaust.is

LÖG NAUST

Lög Náttúruverndarsamtaka Austurlands – NAUST

1. grein
Heiti samtakanna er Náttúruverndarsamtök Austurlands – NAUST.
Félagssvæðið er Austurland frá Finnafirði að Lómagnúpi.

2. grein
Markmið samtakanna er:
Að stuðla að verndun náttúrulegs umhverfis, svo sem landslags, steinda, jarðminja, jarðvegs, lofts, vatns, sjávar, plöntu- og dýralífs.
Að stuðla að því að náttúrulegar auðlindir verði nytjaðar skynsamlega, fólki til heilla í nútíð og framtíð.

3 . grein
Að ofangreindum markmiðum skal unnið í samræmi við lög um náttúruvernd og í samvinnu við aðra sem láta sig náttúruvernd varða. Samtökin leitast við að hafa vinsamleg samskipti við aðila sem hafa annarra hagsmuna að gæta. Öll starfsemi samtakanna skal grundvallast á hlutlausu mati, þekkingu og rannsóknum, eftir því sem framast er unnt.

4. grein
Að markmiði sínu hyggjast samtökin m.a. vinna að eftirtöldu:
Fræðslu um náttúruna og verndun hennar.
Öflun þekkingar um sama efni með heimildasöfnun og rannsóknum.
Athugun og upplýsingum um hvers konar hættur sem náttúrunni kann að stafa af mannvirkjagerð, notkun tilbúinna efna eða öðrum inngripum mannsins.
Friðlýsingu staða, svæða, dýra, plantna, steinda, jarðminja og annarra náttúrufyrirbæra sem æskilegt er að vernda sérstaklega.
Bættri aðstöðu fyrir almenning til að umgangast náttúruna og fræðast um landið án þess að valda á því spjöllum.

5. grein
Aðild að samtökunum er tvenns konar, bein aðild og styrktaraðild.
Beinir aðilar geta allir þeir einstaklingar orðið sem vinna vilja að markmiðum samtakanna.
Styrktaraðilar geta orðið einstaklingar, sveitarfélög, klúbbar, félög, félagasamtök, hlutafélög, fyrirtæki og stofnanir sem þess óska.

6. grein
Stjórn samtakanna skal skipuð fimm aðalmönnum (formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda) og tveimur mönnum til vara.
Stjórnin skal kosin árlega á aðalfundi og skipta stjórnarmenn með sér verkum.
Stjórnin fer með málefni samtakanna milli aðalfunda. Í málum sem varða einstök byggðarlög ber stjórninni að ráðgast við félagsmenn samtakanna á viðkomandi svæði.
Stjórnin skal funda reglulega, eða a.m.k. fjórum sinnum á ári, og þurfa að lágmarki þrír úr stjórn að mæta til fundar.

7. grein
Aðalfundur fer með æðsta vald í málum samtakanna. Stjórnin auglýsir fundinn og fundardagskrá með hálfs mánaðar fyrirvara í a.m.k. einum opinberum miðli.
Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
Allir beinir aðilar að samtökunum eiga rétt til setu á aðalfundi með fullum réttindum og hver styrktaraðili má senda einn fulltrúa á fundinn og hafa þeir þar sömu réttindi, að undanteknu kjörgengi til stjórnar.
Ályktanadrög sem leggja á fyrir aðalfund skulu lögð fyrir stjórn með minnst viku fyrirvara og birti hún drögin á fésbókar- eða heimasíðu samtakanna þannig að félagsmenn geti glöggvað sig á þeim fyrir fundinn.

8. grein
Fjárhagur samtakanna byggist á árgjaldi félaga og framlögum styrktaraðila, svo og hugsanlegum styrkjum til einstakra verkefna. Árgjald skal ákveða á aðalfundi til eins árs í senn.
Fjárhagsár samtakanna er almanaksárið.

9. grein
Samtökin halda úti vefsíðu, þar sem m.a. er birt starfsskýrsla stjórnar ásamt fræðsluefni um náttúru og náttúruverndarmál á Austurlandi ásamt helstu verkefnum samtakanna. Stjórnin ber ábyrgð á heimasíðunni og öðru efni sem sent er út í nafni samtakanna.

10. grein
Hætti samtökin störfum skulu eignir þeirra renna til Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem verji þeim til landgræðslu og náttúruverndar á félagssvæði samtakanna.

11. grein
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi samtakanna. Til að breyta lögum þarf 2/3 hluta atkvæða.

Scroll to Top