Á góðri leið - Vorráðstefna

Vorráðstefna NAUST 4. júní síðastliðinn tókst með eindæmum vel. Alls voru tæplega 40 þátttakendur á ráðstefnunni sem er mjög við hæfi því samtökin eru einmitt 40 ára, stofnuð 13. september 1970. Erindin spönnuðu náttúruvernd sem mikilvægan þátt í öllu skipulagi, hvor sem verið er að skipuleggja landnýtingu í landbúnaði eða á grundvelli náttúruverndar. Alls staðar var undirliggjandi mikilvægi aðkomu félagasamtaka að skipulagsákvörðunum. Eitt erindi fjallaði um umhverfishvata og vellíðan, annað um þá andagift sem listamenn sækja í óspillta náttúru. Mikil umræða spannst um landbúnað og náttúruvernd, lífrænar aðferðir, skógrækt, dýravernd, hollustu, verndun villtra dýrastofna og búsvæða þeirra og aðra þætti þar sem náttúruvernd kemur við sögu í daglegu lífi. Þá fór Hjörleifur Guttormsson yfir sögu samtakana, sem vissulega er merkileg. Erindin verða birt á síðunni á næstunni. Í lok ráðstefnunnar var Hálfdán Björnsson heiðrarður fyrir einstakt ævistarf, en um þessar mundir eru 70 ár liðin frá því að Hálfdán greindi fræðilega sitt fyrsta skordýr. Segja má að Hálfdán sé síðasti alþýðuvísindamaður Íslands þar sem allir sem á eftir koma hafa notið menntunar bæði í framhalds- og háskólum . Að lokum var farið í skoðunarferð í Gleðivík þar sem Egg Sigurðar Guðmundssonar voru skoðuð en þar er á ferðinni einstakt listaverk sem allir náttúruunnendur ættu að skoða. Þá var haldið í friðlandið i Búlandsnesi, skoðaðir fuglar og loks gættu gestir sér á ferskum krækling og hvítvíni. Fullkominn endir á góðum degi.