Kvískerjasjóður, áhugaverðar rannsóknir á náttúrufari styrktar

Miðvikudaginn 14. mars, á 85 ára afmæli Hálfdáns Björnssonar frá Kvískerjum, heiðursfélaga NAUST var haldinn afar áhugaverð ráðstefna á Smyrlabjörgum þar sem kynnt voru verkefni sem hafa verið styrkt af Kvískerjasjóð. Meðal þeirra rannsókna sem voru kynntar voru: Rannsóknir á hopun jökla suður og austur úr Vatnajökli, frá Morsárjökli að Lambatungnajökli. Þar kom í ljós að Lambatungnajökull hefur þynnst um nær 200 metra frá því hann var þykkastur í lok 19. aldar. Aðrir jöklar höfðu þynnst minna og allir höfðu þeir hopað verulega.  Þá voru kynnt líkön sem hafa verið unnin með það fyrir augum að spá fyrir um landslag í framtíðinni miðað við núverandi hörfum jökla. Ekki er þess lengi að bíða að komin verði löng jökulsorfin vötn bæði inn "Skaftárdal" og Breiðamerkurvatn sem nær inn undir Esjufjöll og sýndist vera gott vegstæði um Norðlingalægð er fram líða stundir. Fallegt öskjuvatn mun verða á toppi Öræfajökuls. Þá var fjallað um landnám birkis á Skeiðarársandi og virðist sem innan fárra ára muni verða birkiskógur frá Skeiðarárfarvegi eldri að Skeiðarár/Gígjukvíslarfarvegi.Það er öllum ráðstefnugestum ljóst að þess er ekki langt að bíða að gerbreytt landslag blasi við, jökultungur horfnar en jökulskildir skreyti hæstu fjöll. Á láglendi verði birkiskógur og vel kanna að vera að barrtré nemi aftur land eftir 18.000 ára fjarveru úr náttúru landsins. Fuglar verði öllu fjölskrúðugri og lífríki mikið breytt. Af öðrum áhugaverðum erindum má nefna rannsóknir á öfgakenndu veðurfari við Öræfajökul. Smádýraflóra í splunkunýjum jökulskerjum  sem berast á örstuttum tíma í urð og grjót, þannig að örfáum árum eftir að skerin eru íslaus er þar fjölskrúðugt skordýra og smádýralíf . Þá hvarflaði að formanni hvort ekki væri mögulegt að sum þeirra bara hafa lifað af undir jöklinum frá Þjóðveldisöldog því væri svo hart gengið að C12 samsætunni  en það bendir til þess að loftskipti séu ekki upp á sitt besta. Loks var kynnt mjög fróðlegt verkefni um Eyðibýli.  Það er öllum ljóst sem sóttu ráðstefnuna á rannsóknum styrktum af Kvískerjasjóð að mjór er mikils virði.  Sjóðir sem veita í staðbundnar rannsóknir á náttúrufari eru gulls ígildi. Þakkir fyrir ánægjulegan og fræðandi dag. Ásta Þorleifsdóttir, formaður NAUST