Samúðarkveðjur og þakkir

NAUST sendir aðstandendum innilegar samúðarkveðjur á erfiðum tímum. nattaust.is

Stórt skarð myndaðist í samfélaginu hér á Austurlandi þegar þrjú fórust í hörmulegu flugslysi síðastliðinn sunnudag. Slysið átti sér stað við Sauðahlíðar norðaustan Hornbrynju og voru þar um borð Skarphéðinn G. Þórisson, Fríða Jóhannesdóttir og Kristján Orri Magnússon. Náttúruverndarsamtök Austurlands vilja senda fjölskyldum þeirra og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Skarphéðinn G. Þórisson var ötull náttúruverndarsinni og lagði gríðarlega mikið til málefnisins hér á Austurlandi á hans því miður of stuttu ævi. Reyndist hann NAUST stoð og stytta í baráttunni um náttúruvernd með því að sinna ýmsu félagsstarfi og aðstoða stjórnina við ótal verkefni sem ómögulegt væri að telja upp hér. Við og samtökin öll verðum honum ávallt þakklát fyrir hans framlag, sem hann veitti alltaf með brosi á vör.

Þekking Skarphéðins á náttúrunni og leikni við að miðla henni til ólíkra hópa samfélagsins var í einu orði einstök. Mikið sár hefur myndast í félagatali samtakanna, sem jafnast þó aldrei á við sárin sem hans nánustu hafa hlotið vegna slyssins. Fjölskylda Skarphéðins hefur reyndar einnig staðið þétt með samtökunum í áranna rás og eru eiginkonu hans og börnum sendar sérstakar samúðarkveðjur.

Megi minning fallins félaga vera ljós í lífum okkar allra. Náttúrufegurð kemur ævinlega til með að minna okkur á hversu dýrmætur Skarphéðinn hefur reynst bæði íbúum og náttúru fjórðungsins.

Scroll to Top