Orka, virkjanir, laxeldi. Ályktanir aðalfundar NAUST í september 2024.

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Austurlands, ályktar um orku, vatnsafl, virkjanir, vindorku, laxeldi og fleiri mál. Lestu ályktunina hér. nattaust.is

Líkt og á síðustu aðalfundum hvetur NAUST til almennrar umræðu um orkumál og áform um aukna orkuvinnslu á Austurlandi.

Orkumál og virkjanir

Forsenda þess að ráðast í nýjar virkjanir er að fyrir liggi hver raunveruleg þörf sé samhliða mati á orkudreifingu og orkunýtingu. Það er óásættanlegt að fórna náttúruperlum og víðernum auk þess að raska viðkvæmu jafnvægi í umhverfinu án þess að brýna nauðsyn beri til.

Í þessu sambandi kallar aðalfundur NAUST 2024 eftir að endurskoðaðir verði allir áhrifaþættir svokallaðra „smávirkjana“ allt að 9,9 MW.

Enn fremur varar aðalfundur NAUST við stórtækum áformum um vindorkuver á starfssvæði félagsins.

Á Hraunasvæðinu, hálendinu upp af syðstu fjörðum Austfjarða, er svokölluð Hamarsvirkjun fyrirhuguð, en nýlega kom fram afdráttarlaust álit verkefnisstjórnar 5. áfanga rammaáætlunar um að hún skyldi sett í verndarflokk. Aðalfundur NAUST 2024 fagnar þeirri niðurstöðu og tekur undir rökstuðning verkefnisstjórnar og faghópa. Hamarsvirkjun hefði í raun umturnað vatnasviði Hrauna og síðustu lítt snortnu víðernum hálendis Austurlands, en hið sama á við um áformaða Geitdalsvirkjun.

Náttúruverndarsamtök Austurlands fordæma því viðbrögð og aðför sveitarfélaga og sérhagsmunaafla að Hraunasvæðinu, sem nú krefjast þess að Hamarsvirkjun verði að veruleika, þvert á vel rökstutt álit rammaáætlunar.

Laxeldi – Seyðisfjörður

Aðalfundur NAUST skorar á stjórnvöld að virða vilja meirihluta íbúa og falla frá áformum um laxeldi í Seyðisfirði í ljósi þeirra fjölmörgu raka sem komið hafa fram, m.a. annmarka á Strandsvæða- skipulagi Austfjarða, á grundvelli náttúruverndarsjónarmiða og vegna þeirrar hættu sem framkvæmdin setur Farice 1-strenginn og siglingaleiðir í firðinum í.

Skoðaðu ályktun aðalfundar nánar með því að smella hér.