Ég vil hringrásarhagkerfi, takk!

Vaxandi neysla hefur mikil áhrif á náttúruna, hringrásarhagkerfi getur komið að gangi í þeirri baráttu.

Guðrún Óskarsdóttir skrifar

Nú er nægjusamur nóvember genginn í garð, hvatningarátak Landverndar og Grænfánans sem mótsvar við neysluhyggju. Nóvember er einn neysluríkasti mánuður ársins enda eru þá meðal annars svartur föstudagur, netmánudagur og dagur einhleypra.

Í nægjusömum nóvember er boðað til fjölda viðburða sem upphefja gleðina og léttinn sem hlýst af því að losna við þá tilfinningu að stöðugt skorti eitthvað, tilfinningu sem áðurnefndir neysludagar ýta undir. Ýmsar kjarngóðar greinar  skýra frá lausnum sem við sem einstaklingar og samfélag getum nýtt til að minnka vistsporin og auka lífsgleði. Hér er sjónum hins vegar beint að alþjóðasamfélaginu.

Við höfum öll séð óþægileg gröf yfir vaxandi styrk koltvísýrings í andrúmslofti, minnkandi líffræðilega fjölbreytni í heiminum og hættulega hátt vistspor mannkyns. Þrátt fyrir COP-ráðstefnur og metnaðarfull markmið margra þjóða virðist lítið ganga í að taka á umhverfisvandanum sem vofir yfir okkur.

Hvernig má það vera? Jú, rök hafa verið færð fyrir því að það sé fullkomlega eðlilegt vegna þess að loftslagsbreytingar, hrun líffræðilegrar fjölbreytni og önnur umhverfisvandamál séu ekki óæskilegar aukaverkanir þess efnahagskerfis sem við búum við í dag, heldur rökréttar afleiðingar þess (dæmi: ritrýnd vísindagrein 1, ritrýnd vísindagrein 2).

Með öðrum orðum: Loftslagsbreytingar og hrun líffræðilegs fjölbreytileika eru ekki tvö aðskilin vandamál heldur tvær af mörgum afleiðingum sama vandamálsins, sem er ofnýting takmarkaðra náttúrulegra auðlinda í hagkerfi sem krefst stöðugs vaxtar. Allar COP-ráðstefnurnar og alþjóðlegu markmiðin um annars vegar loftslagsbreytingar og hins vegar verndun líffræðilegrar fjölbreytni takmarkast að miklu leyti við að milda einstakar afleiðingar vandans, sem eðlilega skilar takmörkuðum árangri.

Hvað er þá til ráða? Svarið liggur í augum uppi: Beina sjónum að rót vandans! Kraftarnir sem nú eru dreifðir í viðbrögðum við mismunandi afleiðingum ofnýtingarinnar þurfa að sameinast í hnitmiðuðu átaki til að innleiða kerfi sem þolir okkur, lifir okkur af. Til þess þurfum við að kyngja stoltinu, læra af náttúrunni þar sem allt gengur í hringi og taka upp hringrásarhagkerfi. Það þarf að gerast fljótt, það þarf að gerast í öllum geirum hagkerfisins og það þarf að gerast á alþjóðamælikvarða.

Auðvitað er það hægara sagt en gert. Það eru meira að segja allar líkur á því að það sé rosalegt vesen. Heilu bækurnar eru til um það hvað hringrásarhagkerfi sé og hvernig mögulegt væri að innleiða það svo hér verður ekki farið út í það, heldur aðeins spurt hvort það væri þess virði? Svar við því getur fengist með því að leiða hugann að því fyrir hvern við værum að leggja þetta vesen á okkur.

Fyrir mitt leyti væri það ekki fyrir náttúruna sem slíka. Lífið á jörðinni hefur lifað af fimm fjöldaútrýmingar tegunda og það mun líka lifa af þá sjöttu, sem margir vísindamenn telja að sé nú þegar hafin og það af okkar völdum. Ég hef hins vegar áhyggjur af okkur, við sem samfélag höfum enga reynslu af því að lifa af fjöldaútrýmingu tegunda. Því væri það okkur fyrir bestu að stöðva hana, jafnvel þó það þýði að við neyðumst til að taka upp efnahagskerfi sem býður upp á raunverulegan stöðugleika, sátt við umhverfið, frelsi frá neysluhyggju og hennar stöðuga skorti og fleiri álíka aukaverkanir.

Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands

Scroll to Top