Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir skrifar
Fyrir nokkrum vikum heyrði ég í fyrsta skipti minnst á nægjusaman nóvember. Síðan þá hef ég velt þessu átaki svolítið fyrir mér og sér í lagi orðinu sjálfu, nægjusemi. Hvernig myndi ég helst vilja tileinka mér þetta í eigin lífi? Fyrst kom upp í hugann matarsóun – ég hendi skammarlega miklu af mat, einhverju sem gleymdist aftast uppi í skáp eða inni í ísskáp og er farið að skemmast. Eða mögulega kannski farið að skemmast. Hvílík vitleysa og hvílík sóun. Þarna þyrfti ég klárlega að tileinka mér nægjusemi (og ef til vill útsjónarsemi).
Mig langar hins vegar að skrifa um annað. Það sem ég hef mest leitt hugann að í tengslum við þetta orð, nægjusemi, er tíminn okkar og hvernig við verjum honum. Hversdagurinn minn er undirlagður af öllu því sem fylgir að eiga mann og tvö lítil börn, að reka heimili og vera í vinnu. Reyndar er mitt dæmi örlítið flóknara því í dag er ég í endurhæfingarleyfi eftir veikindi, þó líka í smá verkefnum hér og þar tengdum vinnunni minni. Í raun hefur líf mitt undanfarin ár verið undirlagt af erfiðum og hjartaskerandi verkefnum sem skyndilega var fleygt í fangið á mér. En af þeim sökum tel ég mig njóta ákveðinna forréttinda: Lífið hefur á sinn brútalska hátt kennt mér hvað það er sem skiptir mestu máli. Í mínum huga er það að setjast á þúfu, á stein eða bara upp í sófann minn slitna heima í stofu, án þess að þurfa að vera nokkurs staðar annars staðar, án þess að hafa verkefni hangandi yfir mér eða nokkuð sem stressar mig, án þess að svima líkt og ég sé að upplifa flugvélar-ókyrrð eða vera með sjóntruflanir eða taugaverki – það er það besta í heiminum. Tala nú ekki um þegar ég get haft strákana mína í fanginu og veitt þeim fulla athygli. Því það er hitt sem ég hef velt fyrir mér; athyglin mín er oft úti um allt og ég tek varla eftir því. Ég þvæ ekki bara upp, ég er líka að hugsa um tónverkið sem ég er að fara að semja og hvað er hægt að hafa í kvöldmatinn og svo hvern ég geti fengið til að passa strákana þegar ég og maðurinn minn förum á jólahlaðborðið næstu helgi. Er svo kannski að hlusta á tónlist ofan í þetta allt saman. En eftir að ég fór að velta hinum nægjusama nóvember fyrir mér hef ég reynt, stundum, að vaska bara upp og gera ekkert annað. Vera með hugann nákvæmlega við það sem ég er að gera og bara það. Eða: Þegar ég labba heim með yngri strákinn úr leikskólanum vill hann yfirleitt klifra upp á alla steina á leiðinni og hoppa í alla polla. Oftast þurfum við í rauninni ekkert að flýta okkur. Ég hef komist að því að það er dásamlega frelsandi að leyfa honum bara að stjórna ferðinni, að veita honum fulla athygli og taka þátt í gleði hans í staðinn fyrir að pirrast og reka hann áfram heim.
Nægjusamur nóvember hefur kennt mér að tími með ástvinum sem fer í ekkert sérstakt og athygli sem beinist að þessu „hér-og-nú“ (en ekki öllu öðru mögulegu) færir undursamlega kyrrð. Ég hef svo oft verið í þeirri stöðu að þegar ég reyni að setjast niður og hvíla mig er ég ófær um það því heilinn er á milljón og áreitið alls staðar og svo enda ég bara á að skrolla í símanum. Í dag virðast flestir líta á hvíld og rólegheit sem lúxus (og jafnvel leti) en í raun er þetta jafn nauðsynlegt og matur og drykkur, svefn. Þar er andlega hvíldin jafnvel mikilvægari en sú líkamlega. Ég hvet ykkur til að prófa að vaska upp og ekkert annað, að brjóta saman þvott og hugsa um bara það og ekkert annað. Eða að horfa á barnið ykkar, maka eða góðan vin og veita þeim óskipta athygli, hlusta á það sem þau hafa að segja og njóta þess að eiga þau að.
Höfundur er tónskáld og meðlimur í Náttúruverndarsamtökum Austurlands