Æskuárin á Hallormsstað höfðu eflaust mótandi áhrif á sýn mína til landsins og gróðurríkisins sérstaklega. Aðeins örfáar jarðir á Íslandi voru þá friðaðar fyrir beit. Eitt af viðfangsefnum okkar bræðra á barnsaldri var að smala skóginn að minnsta kosti tvisvar á sumri til að reka út ágengar „skógarrollur“. Birkið óx upp að skógargirðingunni en utan hennar var landið nauðbeitt. Þessar aðstæður urðu mér tilefni ritgerða í menntaskóla og framhaldsnám í náttúrufræði var nánast sjálfgefið markmið.
Hugmyndir um náttúruvernd með friðun landsvæða höfðu komist á dagskrá í Bandaríkjunum á 19. öld og síðar smám saman í Evrópu þar sem áhrifa langrar búsetu gætti þó víðast hvar. Hérlendis gerðist Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur einn helsti boðberi víðtækrar náttúruverndar með fyrirlestri sem hann hélt 1949 á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags. Norkkrum árum síðar voru fyrstu almennu lögin um náttúruvernd hérlendis sett 1956.
Í líffræðináminu í Leipzig sótti ég opna fyrirlestra um „Naturschutz“ og farið var í skoðunarferðir víða. Að námi loknu réði tilviljun því að við Kristín settumst að í Neskaupstað þar sem henni bauðst læknisstarf haustið 1963. Úr því varð heimilisfesti okkar þar í 42 ár.
Samhliða störfum mínum að kennslu og félagsmálum urðu Austfirðir brátt vettvangur kynnisferða og rannsókna að sumarlagi. Bæjarstjórnin í Neskaupstað ákvað 1965 að tillögu Bjarna Þórðarsonar bæjarstjóra að koma á fót náttúrugripasafni, kaus nefnd í málið og varð ég formaður hennar. Að því verkefni var unnið í hjáverkum en jafnframt tekið upp samstarf við starfandi náttúrugripasöfn. Safninu á Akureyri veitti þá forstöðu Helgi Hallgrímsson bekkjarfélagi minn úr MA, góðkunningi af Héraði og bréfavinur frá námsárum okkar í Þýskalandi. Saman fórum við sumarið 1966 suður um Austfirði að Jökulsá á Breiðamerkursandi, þar sem við hittum m.a. Hálfdán á Kvískerjum við brúargerð. Auk söfnunar sýnishorna bar náttúruvernd á góma og kynni tókust þá við ýmsa, m.a. frændfólk mitt á Stafafelli í Lóni.
Skógræktarfélag starfaði í Neskaupstað frá því um miðja öldina, lengi undir formennsku Gunnars Ólafssonar skólastjóra. Hafði félagið komið upp girðingu í hlíðinni ofan byggðar, en fyrir var í miðbænum skrúðgarður með heitinu Lystigarður Neskaupstaðar, upphaflega á vegum kvenfélagsins en síðar í umsjá bæjarfélagsins. Driffjöður garðsins frá byrjun var Eyþór Þórðarson kennari og gróðurunnandi.
Náttúruverndarnefnd 3ja manna starfaði lögum samkvæmt í Neskaupstað, kosin af bæjarstjórn. Átti ég sæti í henni ásamt Birni Björnssyni kaupmanni, en formaður var bæjarfógetinn. Björn var næmur náttúruunnandi, sonur Björns Björnssonar, landsþekkts ljósmyndara. Með okkur tókst ágætt samstarf sem og við Reyni Zoëga, lengi fulltrúa Sjálfsstæðismanna í bæjarstjórn. Náttúruverndarnefndin ásamt skógræktarfélaginu beitti sér 1968 fyrir friðun bæjarlandsins fyrir sauðfjárbeit. Að tillögu nefndarinnar samþykkti bæjarstjórn 1971 stofnun fólkvangs utan við byggðina allt að mörkum við Mjóafjörð. Fólkvangur Neskaupstaðar varð sá fyrsti hérlendis samkvæmt náttúruverndarlögum.
Landvernd – landgræðslu og náttúruverndarsamtök Íslands voru stofnuð árið 1969 sem félagasamband undir forystu Hákonar Guðmundssonar, sem þá var formaður Skógræktarfélags Íslands. Aðild einstaklinga varð þar ekki að veruleika fyrr en löngu síðar.
Árið 1970 var á vegum Evrópuráðsins yfirlýst sem náttúruverndarár Evrópu. Sameinuðu þjóðirnar höfðu þá nýverið samþykkt að tillögu Svía að standa að heimsráðstefnu um náttúruvernd undir kjörorðinu Umhverfi mannsins. Alþjóðleg umræða um náttúruvernd styrktist til muna, sem og um stórmál eins og útfærslu íslensku landhelginnar í 50 mílur. Ekki vantaði heldur önnur ásteitingsefni hérlendis eins og vatnsmiðlanir í Þjórsárverum og Mývatni og virkjun Gullfoss. Þegar hér var komið sögu vorum við Helgi Hallgrímsson ákveðnir í að stefna að náttúruverndarsamtökum einstaklinga í fjórðungum okkar, og urðu þau að veruleika á árinu 1970, SUNN hélt stofnfund sinn í júní en NAUST um haustið. Næstu árin urðu einnig hliðstæð samtök að veruleika í öðrum landshlutum.
Undirtektir fólks sem leitað var til vorið 1970 um undirbúning að stofnun Náttúruverndarsamtaka Austurlands fóru fram úr vonum. Níu tilkvödd úr jafn mörgum byggðarlögum komu til undirbúningsfundar á Hallormsstað 14. júní 1970. Fleiri bættust síðan við undir boði á stofnfundinn 13. september þá um haustið. Hann sóttu um 50 manns og á annað hundrað höfðu þá skráð sig í samtökin; sú tala hækkaði brátt í um 200 félagsmenn auk tuga styrktaraðila.
Vorið 1971 tóku gildi ný lög um náttúruvernd með mörgum merkum ákvæðum, m.a. var ákvæði um Náttúruverndarþing þriðja hvert ár og skyldi það kjósa fulltrúa í Náttúruverndarráð auk formanns sem menntamálaráðherra tilnefndi. Ráðið hóf störf eftir fyrsta þingið vorið 1972 undir formennsku Eysteins Jónssonar alþingismanns. Varð undirritaður meðal kjörinna fulltrúa og sat í ráðinu í 6 ár.
Meðal nýmæla í náttúruverndarlögunum var ákvæði um skrá yfir náttúruminjar sem ástæða kynni að vera að friðlýsa að lögum. Fylgir henni þess utan forkaupsréttur af hálfu ríkisins. Eitt af fyrstu verkum NAUST var að efna í hugmyndir um slíka staði og svæði á Austurlandi og var leitað til félagsmanna eftir ábendingum. Var skrá með 64 atriðum send Náttúruverndarráði til athugunar í mars 1973 og fylgdi með uppdráttur. Er fróðlegt að bera skrá þessa saman við stöðuna nú nær hálfri öld síðar. Þarna var m.a. bent á Krepputungu og Kverkfjöll sem myndað geti þjóðgarð að viðbættu stóru svæði vestan Jökulsár á Fjöllum. „Einnig mætti íhuga að tengja svæðið um jökul þveran hinum stækkaða Skaftafellsþjóðgarði.“ Sem sjá má er hér á ferðinni hugmyndin um það sem síðar varð Vatnajökulsþjóðgarður.
Áttundi áratugurinn reyndist frjór fyrir störf margra að náttúruvernd. Náttúruverndarráð undir forystu Eysteins Jónssonar skapaði áður óþekkta fótfestu fyrir áhugamannastarf í umhverfismálum. Ráðið tengdist víða inn í stjórnkerfið með samráðsnefndum, m.a um orkumál, raflínulagnir og vegstæði og gat þannig komið sínum viðhorfum að á fyrsta stigi undirbúnings. Þannig tókst að stöðva ýmis skipulagsafglöp í fæðingu en beina öðru í betri átt með samkomulagi. Þróun Skaftafellsþjóðgarðs og stofnun þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum eru einnig dæmi um ljósa ávinninga á þessu skeiði.
Starfshættir NAUST og samstarf við hliðstæð samtök í öðrum landshlutum mótuðust á þessu skeiði. Á árinu 1975 höfðu þau myndað með sér SÍN – Samband íslenskra náttúruverndarfélaga. Stóð SÍN m.a. að fjölsóttri náttúruverndarkynningu í nokkur kvöld í Norræna húsinu 1977, m.a. með myndasýningu sem síðan fór víða. Formennska í SÍN fluttist milli aðildarfélaga, en var ólaunuð og lognaðist samstarf félaganna út af á níunda áratugnum. Sást á þessu hversu afdrifaríkt það var að ekki tókst að gera Landvernd að þeim bakhjarli í náttúruverndarstarfi einstaklinga, eins og tillögur voru um þegar árið 1973. Þar réði mismunandi sýn til gróðurverndar líklega mestu.
NAUST ýtti frá upphafi á um stofnun umhverfisráðuneytis. Tillaga fulltrúa okkar á fyrsta Náttúruverndarþingi 1972 fékk jákvæð viðbrögð, en 18 ár liðu uns slíkt ráðuneyti sá dagsins ljós. Náttúruverndarráði var í framhaldinu breytt í Náttúruvernd ríkisins og hún árið 2002 sameinuð málefnum Hollustuverndar í Umhverfisstofnun. Sú kerfisbreyting tókst ekki sem skyldi og sjónarmið náttúruverndar féllu í skuggann í opinberri stjórnsýslu. Þessu ollu m.a. harðvítug átök um stóriðjustefnu þáverandi stjórnvalda.
NAUST hélt starfsemi sinni áfram óslitið þótt hljómbotninn í samfélaginu í garð náttúruverndar væri ekki sá sami og áður er nálgaðist aldamót. Þegar hér var komið sögu tóku konur aukinn þátt í starfi NAUST og hafa síðan oft verið í stjórnarforystu. Deilan um risastóra álbræðslu færðist 1997 frá fyrirhugaðri staðsetningu á Keilisnesi austur í Reyðarfjörð og henni fylgdi sókn stjórnvalda og Landsvirkjunar í að ráðast í virkjanir norðan Vatnajökuls. Aðvaranir um meðfylgjandi losun gróðurhúsalofts voru að engu hafðar. Stóriðjusinnar gerðust afar háværir eystra undir merkjum „Afls fyrir Austurland“ og reyndu að kæfa alla gagnrýni. Hámarki náði sú lota með tilraun til yfirtöku á Náttúruverndarsamtökum Austurlands á aðalfundi NAUST við Snæfell sumarið 2000. Varð það einstæða áhlaup viðkomandi til minnkunar og hurfu þeir brátt þegjandi úr félaginu.
Einkennandi fyrir stóriðjumálið hér eystra var áhersla flestra í röðum umhverfisverndarfólks þess tíma á andstöðu við virkjun fremur en verksmiðju, sem þó var forsenda Kárahnjúkavirkjunar. Þessu hefði vikið öðruvísi við ef loftslagsmálin hefðu þá verið komin í jafnmiklum mæli á dagskrá og nú tveimur áratugum síðar. Hæstaréttardómur sem féll undirrituðum í vil 2005 og skuldbatt Alcoa til að ráðast í umhverfismat fyrir verksmiðju sína dugði hins vegar ekki til að stöðva framkvæmdir sem þá voru hafnar.
Þegar nú horft er til baka á tilvist NAUST í hálfa öld er mér efst í huga minningin um samstarf við þá fjölmörgu Austfirðinga og aðra, konur og karla, unga og aldna, sem lagt hafa málstað félagsins lið á þessum tíma. Starf mitt færðist í tvo áratugi inn á vettvang Alþingis og ríkisstjórnar um skeið. Einnig það gaf tækifæri til að leggja málstað náttúruverndar lið og þoka fram hugsjónum. Alla tíð hef ég átt órofa samleið með okkar grónu samtökum og náð að sitja flesta aðalfundi þeirra. Þótt margt hafi áunnist er þörfin brýnni nú en nokkru sinni fyrir vökul augu og aðgerðir til að koma samskiptum mannsins við móður jörð í lífvænlegt horf.
Þeim fækkar sem komu að starfi NAUST fyrstu árin. Nýjar kynslóðir hafa skilað samtökunum til nútíðar og horfast áfram í augu við gífurlega krefjandi verkefni í umhverfismálum, hér á Austurlandi sem annars staðar. Þau leysast ekki nema með þátttöku og meðvitaðri breytni almennings. Vakning og skilningur ungs fólks í fjórðungnum skiptir þar mestu og það verður áfram verkefni samtakanna að fylkja hér liði með náttúrunni sem við erum óaðskiljanlegur hluti af.
Hjörleifur Guttormsson, fyrsti formaður NAUST og fyrrverandi þingmaður og ráðherra