Alþjóðlegur dagur hafsins

Alþjóðlegur dagur hafsins. Hafið er mikilvægt öllu lífríki á jörðinni. nattaust.is

Í vikunni sem nú er að líða var alþjóðlegur dagur hafsins en hann er haldinn 8. júní ár hvert og var tekinn upp af Sameinuðu þjóðunum árið 2008. Það verður augljósara með ári hverju hversu mikilvægt hafið er okkur öllum á jörðinni enda þekur það um 70% af yfirborði hennar. Hafið er okkar helsta uppspretta súrefnis og aftakamesti kolefnisbindari sem er á jörðinni. Leyndardómar hafsins eru miklir, enda höfum við aðeins skoðað brot af honum miðað við þurrlendi. Hafið er því lífæð okkar allra og ber því að koma fram við það af virðingu.

Súrnun sjávar

Ein af stærstu afleiðingum loftslagsbreytinga er súrnun sjávar en með vaxandi magni af koltvísýringi í andrúmslofti tekur sjórinn við kolefni sem aldrei fyrr og er afleiðingin lækkandi sýrustig í hafinu. Engin fordæmi eru fyrir jafn hraðri aukningu kolefnis í sjó og vegna súrnunar er fjöldaútdauði tegunda sífellt vaxandi. Dauði kóralrifa er hvað mest áberandi en þau deyja vegna minnkandi hæfni vegna uppbyggingar kalkefna. Hingað til hafa kóralrif einna helst verið bendluð við svæði þar sem sjór er hvað hlýjastur, en sífellt fleiri athuganir eru að sýna fram á að fjöldi kóralrifa í köldum hafsvæðum er talsvert meiri en haldið hefur verið. Því eru þessi áhrif enn víðtækari en áður var haldið. Í kóralrifum lifa fjölbreyttar tegundir lífvera sem missa lífsvæði sín með dauða rifanna og verður það því til þess að þessar tegundir eiga margar undir högg að sækja.

Hitastigsbreytingar í hafi

Með hækkun hitastigs í hafi er hætt við ofauðgun ýmissa næringarefna í efstu lögum í sjónum sem getur valdið vaxandi tíðni þörungablóma. Fjölgun tegunda sem lifa í hlýrri sjó verður á kostnað þeirra sem lifa í kaldari sjó. Allar breytingar á tegundasamsetningu geta haft margar ófyrirsjáanlegar afleiðingar, ekki síst vegna þess að þekking okkar á hafinu og starfsemi þess er afar takmörkuð. Bráðnun jökla getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í kringum Ísland þar sem kalt vatn auðugt af ýmsum næringarefnum rennur í auknum mæli í hafið í kringum landið. Margar spurningar eru á lofti hvaða áhrif hitastigsbreytingar í hafi komi nákvæmlega til með að hafa en okkur nærtækast er sennilega óvissa með áhrif á golfstrauminn sem hefur séð til þess að hlýrra er á Íslandi en hnattstaðan segir til um.

Hækkun sjávarborðs

Sérfræðingar eru ekki á sama máli um hversu mikil hækkun sjávarborðs vegna bráðnunar íss komi nákvæmlega til með að verða, en sé rýnt í mismunandi heimildir, eru þær á einu máli um að hækkun í kringum Ísland komi ekki til með að verða minni en að minnsta kosti 50 sentímetrar í besta falli. Aðeins þessir 50 sentímetrar koma til með að hafa víðtæk áhrif á mörg byggðalög á Íslandi, enda flest þeirra staðsett við hafið og afar vinsælt að byggja sér húsnæði við sjávarsíðuna. Aukinn veðurofsi í kjölfar loftslagsbreytinga getur því orðið til þess að sjógangur á land verði talsvert ýktari en það sem við búum við núna.

Hvalirnir

Í tilefni af alþjóðlegum degi hafsins árið 2023 er ekki úr vegi að minnast á hvali, enda hefur hávær umræða verið í kringum hvalveiðar í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa upp um þær kvalir sem þeir hafa liðið vegna veiðanna. Hvalir eru stórkostleg og tignarleg dýr og eru margar ástæður til þess að vilja vernda hvalstofnana. Ein stærsta ástæðan er víðtæk áhrif hvala á vistkerfin í hafinu en sýnt hefur verið fram á að þeir eru lykillífverur þegar kemur að aðgengi næringarefna fyrir fjölda annarra lífvera í hafinu. Með stærð sinni og blástursholum flytja þeir næringarefni frá hafsbotni til efri laga í sjónum, þeir innbyrða fæðu neðar í hafinu og skila af sér því vatni sem þeir innbyrða um leið þegar þeir koma upp á yfirborðið og fylgja þá næringarefnin þangað upp. Það er líka mikilvægt upp á lífhringrásina að hræ hvala fari á sjávarbotninn þegar þeir hafa lokið lífskeiði sínu, þannig komast mikið af þeim næringarefnum sem þeir hafa innbyrt í gegnum ævina aftur í hringrásina í hafinu. Athuganir hafa þannig sýnt að hvalir hafa jákvæð áhrif á fiskistofna, þrátt fyrir að neyta þeirra, andstætt því sem haldið hefur verið fram.

Verndum hafið

Ástæðurnar fyrir því að vernda hafið eru því fjölmargar og fjölþættar. Hvort sem hvatinn er að halda uppi hagkerfi eins og okkar hér á Íslandi sem er byggt að mörgu leiti upp á sjávarútvegi, eða einfaldlega virðing fyrir lífríkinu, er besta leiðin alltaf náttúruvernd. Förum varlega með þá lífæð og auðlind sem hafið er, fyrir lífríkin, fyrir okkur, fyrir fortíðina og ekki síst, fyrir framtíðina.

Scroll to Top