Umhverfi og orka – Ályktanir aðalfundar NAUST 2025

Drög að ályktunum aðalfundar NAUST 2025 nattaust.is

Stjórn NAUST vekur athygli á ályktunum aðalfundar 2025 sem haldinn var í Viðfirði þann 23. ágúst og sjá má hér að neðan.

Umhverfi

Líffræðileg fjölbreytni
Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða heilbrigðra vistkerfa og velferðar samfélagsins. Í dag stöndum við frammi fyrir miklum áskorunum vegna viðstöðulausrar ofnýtingar náttúrulegra auðlinda sl. áratugi. Á heimsvísu hefur þessi þróun valdið loftslagsbreytingum, útbreiðslu ágengra tegunda og stórfelldri röskun búsvæða svo fátt eitt sé nefnt, sem allt ýtir undir það hrun líffræðilegrar fjölbreytni sem nú er í gangi. Mikilvægur liður í að snúa við blaðinu er innleiðing hringrásarhagkerfis.

Náttúruvernd
Á Austurlandi er einstök náttúra sem veitir margskonar vistkerfisþjónustu. Þessi auðlind er þó ekki sjálfgefin og enn síður endalaus. Lykillinn að sjálfbærri framtíð svæðisins er því skynsamleg nýting auðlinda sem byggir á vistkerfisnálgun og lífsferilsgreiningu afurða. Náttúruvernd er þar ekki andstaða framþróunar heldur undirstaða hennar, enda hafa rannsóknir sýnt fram á samfélagslegan ávinning hennar. Aðalfundur NAUST 2025 kallar eftir því að sveitastjórnir á Austurlandi standi með náttúrunni og gefi náttúruvernd stóraukið vægi við ákvarðanatökur, okkur öllum til heilla.

Orka

Framleiðsla, dreifing og nýting
Á meðan ekki er til heildstæð stefna hvað varðar orkuframleiðslu og -nýtingu hér á landi, er hætta á því að fjársterkir aðilar, oft erlendir, spilli náttúru landsins til þess eins að selja orkuna hæstbjóðanda. Slíkur iðnaður kemur orkuskiptum ekki við, heldur ýtir aðeins undir þá ofneyslu og sóun auðlinda sem hefur komið okkur í þá alvarlegu stöðu sem við erum í dag í umhverfismálum. Þess vegna kallar aðalfundur NAUST 2025 eftir því að heildstæð stefna í bæði orkuframleiðslu, -dreifingu og -nýtingu verði unnin fyrir Austurland og Ísland allt.

Vindorkuáform
Aðalfundur NAUST 2025 varar við stórtækum áformum um vindorkuver á starfssvæði samtakanna, sem er jafnvel að finna á víðáttumiklum votlendissvæðum upp til heiða, við anddyri þjóðgarðsins. Samtökin hafa þungar áhyggjur af framtíð heiðalanda fjórðungsins, sem eru í dag nýttar af bæði mönnum og dýrum á margvíslegan hátt.

Skoðaðu ályktanir aðalfundar nánar með því að smella hér.

Scroll to Top