Dagur jarðarinnar 2023

Dagur jarðarinnar 2023. Humla á fífil, mikilvægt er að við hugsum vel um náttúruna. nattaust.is

Í dag, 22. apríl er dagur jarðarinnar, til hans var stofnað fyrst árið 1970 af frumkvæði bandaríska öldungadeildaþingmannsins Gaylord Nelson. Árið 2009 gerðu sameinuðu þjóðirnar daginn að alþjóðlegum degi móður jarðar.

Móðir jörð hefur gefið okkur svo mikið. Hún fæðir okkur og klæðir af alúð hvern einasta dag, sem við á Vesturlöndum höfum tekið sem sjálfsögðum hlut. Við ríkustu þjóðir heims höfum tekið og tekið á kostnað fátækari systkina okkar. Okkar von og trú er að við séum hinsvegar að vakna upp af græðginni og séum byrjuð að leita leiða til að koma betur fram við náttúruna og um leið systkini okkar um heim allan. Umhverfisvernd er nefnilega jafnréttismál, þegar við tökum ekki ofgnótt fyrir okkur sjálf, er nóg fyrir okkur öll. Í tilefni dagsins koma hér nokkur einföld ráð um hvað sé hægt að gera til að draga úr vistsporum okkar og lifa sjálfbærari lífsstíl.

Flokka sorp

Eins og staðan er núna eru um það bil 70% af sorpi urðað, það eru auðlindir sem við erum búin að hafa fyrir að sækja og vinna. Blóð, sviti, tár og gríðarlegir fjármunir eru í raun grafin í jörð sem verður svo ónothæf fyrir flest alla landnýtingu. Besta skrefið er að byrja á plasti og pappa, það er einfalt að flokka það frá og eru komnar tunnur við hvert heimili til að setja það í. Gott er einnig að flokka málma og er það einfalt sömuleiðis. Það er mjög auðvelt að endurvinna málma og eru þeir sömuleiðis auðlind sem fer þverrandi . Sum sveitarfélög sækja flokkaða málma í endurvinnslutunnur við heimili en annars er einfalt að safna þessu saman og kippa með næst þegar farið er í Sorpu. Gler er einnig mikilvægt að flokka , oft er hægt að nota það áfram heima eins og það er, en endurvinnsla á gleri kostar margfalt minni orku en nýframleiðsla auk þess sem sandurinn sem þarf til að búa til glerið fer að verða af skornum skammti . Því miður er gler þó urðað að minnsta kosti hér fyrir austan eins og er, en það gerir því mikilvægara að skila glerflöskum í endurvinnsluna. Lífrænt sorp er gríðarlega mikilvæg auðlind sem við höfum verið að sóa, flest sveitarfélög eru búin að koma tunnum fyrir lífrænt sorp við heimili og sækja það þangað. Einnig er hægt að nýta lífræna sorpið heima, safna í moltutunnu eða nota leiðir eins og bokashi til að jarðgera lífræna efnið og nota í ræktun heimavið.

Minnka neyslu

Að minnka neyslu er góð leið til að minnka vistspor og um leið sorpið sem skilast frá okkur. Gott er að temja sér að ígrunda vel hvort maður þurfi virkilega á þeim hlut að halda sem er verið að hugsa sér að kaupa. Raftæki nota gríðarlegt magn af auðlindum og því er góð regla að skipta raftækjum ekki út fyrr en þau eru orðin ónýt í stað þess að elta tískustrauma. Fatnaður notar einnig mikið af auðlindum og fer gríðarlegt magn í ruslið á hverjum degi. Með því að versla frekar vandaðan fatnað, fara vel með flíkurnar og elta ekki tískustrauma er hægt að spara sér fatainnkaup og verða þau í leiðinni skemmtilegri þegar að þeim kemur. Að fara sjaldnar í matvöruinnkaup minnkar aukaneyslu og er góð leið að gera skipulag yfir hvað eigi að hafa í matinn út vikuna og gera stór innkaup einu sinni í viku. Að minnka neyslu eykur lífsgæði þar sem peningar heimilisins sparast og þannig verður til meiri frítími sem hægt er að eyða í gæðastundir með fjölskyldunni. Við mælum með góðum degi úti í náttúrunni.

Nota bílinn minna

Hvort sem þú keyrir bensín- dísel- metan- eða rafbíl hljótast alltaf umhverfisáhrif af notkun bifreiðarinnar, til dæmis vegna eyðslu á malbiki. Að ganga og hjóla þegar hægt er er ekki aðeins gott fyrir umhverfið, heldur líka heilsuna og sparar auðlindir sem fara í að knýja bifreiðina og um leið þyngir það pyngjuna þegar ekki þarf að eyða peningum í eldsneyti eða rafmagn.
Versla í heimabyggð
Að kaupa inn varning sem er uppruninn sem næst sér heldur vistsporinu í skefjum, styður við hringrásarhagkerfið og atvinnusköpun í manns heimabyggð ásamt því að vera mikilvægt skref í átt að sjálfbærni.

Verum vinir jarðarinnar

Góðu lesendur, jörðin er okkar lífgjafi, ef við röskum þeim vistkerfum sem hún hefur komið sér upp enn frekar er voðinn vís fyrir mannkynið. Hugsum fallega um jörðina í dag og gerum okkar besta. Hvert einasta skref í átt að umhverfisvænni lífstíl er mikilvægt. Veljum að eiga viðskipti við fyrirtæki sem standa sig vel í að bæta sig og munum eftir umhverfinu þegar kemur að því að nýta kosningaréttinn okkar. Við getum þetta saman, því sameinuð erum við sterkari.

Scroll to Top