Hugvekja og áramótakveðja 2023

Hvönn við lagarfljót að sólsetri. NAUST senda áramótakveðju.

Nú þegar árinu er senn að ljúka, reikar hugurinn oft til þess hvað við getum gert betur á nýju ári. Eitt af því er að gæta þess að menga sem minnst á ferðum okkar.

Skemmtilegar froststillur hafa ríkt á Austurlandi. Hins vegar skemma loftið öll sem menga:

Við vélar laust er víða ganga
vill samt enginn standa.
Sá er á hvað síst vill hanga
sinn við púst og anda.

Hægur leikur er að lesa „Sú“ þar sem stendur „Sá“. Kynlaust mætti líka segja: „Sem á bíl hvað síst …“.

Hins vegar vill NAUST minna líka eigendur rafmagnsbíla eindregið á það að betra er að ganga og hjóla en keyra, sérstaklega fyrir eigin heilsu. Rafmagn kallar líka á virkjanir og þær skemmdir sem virkjunarlón, vindmyllur og hvaða orkuframleiðsla sem er leiðir til.
Við heyrum síðustu daga fleiri og fleiri sem heimta meiri rafmagnsframleiðslu en af hvaða tagi sem hún er skerðir hún náttúrugæði. Spara, spara og aftur spara skal vera kjörorð okkar allra á nýja árinu hvað orku varðar!

Náttúruverndarsamtök Austurlands vilja óska velunnurum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs, með þökkum fyrir það góða samstarf sem er að baki og vonum um að það haldi áfram. Ljóð Philip Vogler hafa sett lit á starf NAUST síðasta árið, og því ekki úr vegi að enda það með einu slíku auk vísunnar að ofan. Ljósmyndina tók Hólmfríður Sigurbjörnsdóttir.

Tungumál og menningu þar mynd er list
þróar fólk og þar við styðst
ef þreytir jörðu ei þess vist.

Senda kveðju og segja okkur sólarglóð,
náttúra og NAUSTs smá ljóð:
Nú skal vera jörðu góð.

Scroll to Top