„Síðustu óbyggðu víðernin á hálendi Austurlands eru dýrmæt. Víðerni landsins eru talin eitt af því allra verðmætasta sem Ísland hefur yfir að ráða. Engir brýnir almannahagsmunir réttlæta fyrirhugaða Geitdalsárvirkjun.
Ef af verður er ljóst að framkvæmdin myndi raska votlendi, stöðuvötnum, tjörnum, vistgerðum með hátt verndargildi og búsvæðum fugla og hreindýra.
Geitdalsárvirkjun er ein af mörgum áformum um vatnsafls- og vindorkuvirkjanir á Austurlandi. Áformin eru af slíkri stærðargráðu að þó aðeins hluti þeirra gangi eftir munu þau hafa umbreytandi áhrif á landslag, víðerni og náttúru landshlutans.
Stofnað til ófriðar um virkjanir
Fyrirheit um að friður myndi ríkja um virkjanir á Austurlandi eftir Kárahnjúkavirkjun hafa reynst léttvæg. Markmiðum laga um rammaáætlun er að fá yfirsýn og stuðla að því að í nýtingaflokk fari þær hugmyndir um virkjanir sem valda hvað minnstum skaða og hámarka samfélagslegan ávinning. Með því að ganga fram með Geitdsárvirkjun utan rammaáætlunar er enn einu sinni stofnað til ófriðar um virkjanir í þessum landshluta. Fjársterkir aðilar með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi eru nú orðnir gerendur í því að spilla íslenskri náttúru með virkjunum. Það er grundvallar breyting frá því sem áður var þegar fyrirtæki í eigu almennings áttu hlut að máli og ávinningurinn féll í skaut samfélagsins.“
Ofangreint er frá vef Landverndar en stjórn Landverndar leggst alfarið gegn áfram verði haldið á þeirri braut sem mörkuð hefur verið með framlagðri tillögu að matsáætlun.