„Í þessari tilhögun er gert ráð fyrir að virkja Hamarsá sem rennur um Hamarsdal til austsuðausturs og út í Hamarsfjörð. Hamarsá á upptök sín í smávötnum og tjörnum á Sviðinhornahraunum í efstu drögum Hamarsdals. Stærst þessara vatna er Hamarsvatn, sem er norður af Þrándarjökli. Hamarsá er um 32 km löng frá Hamarsvatni niður í ósa í Hamarsfirði og er flokkuðsem dragá með afrennsli af Þrándarjökli að hluta til.
Í 3. áfanga rammaáætlunar var gerð grein fyrir tveimur virkjunum, sem báðar nýttu hluta af vatnasviði Hamarsár. Annars vegar var um að ræða Hraunavirkjun til Berufjarðar, R3150A, og hins vegar Hraunavirkjun til Suðurdals í Fljótsdal, R3149A. Báðir þessir virkjunarkostir gerðu ráð fyrir að nýta hluta af vatnasviði Hamarsár eins og áður segir ásamt Kelduá í Suðurdal, Grímsá og Geitdalsá í Skriðdal, Fossá í Berufirði, og Geithellnaá í Álftafirði. Í þessari tilhögun er eingöngu gert ráð fyrir að virkja vatnasvið Hamarsár í Hamarsdal.
Arctic Hydro ehf. er með rannsóknarleyfi á svæðinu, útgefið 10. maí 2016 (OS-2016-L007-01). Gildistími leyfisins er til 8. maí 2023.“