Fjallgarður. Náttúruverndarsamtök Austurlands. nattaust.is

Á náttúruverndarvaktinni í hálfa öld – NAUST 50 ára

Inngangsorð

Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) fagna 50 ára afmæli á þessu ári. Í hálfa öld hafa þau staðið vaktina um náttúru og umhverfismál á Austurlandi og minnt á þýðingu hvoru tveggja í verki, ræðu og riti. Samtökin eru þau langlífustu hér á landi í sögu íslenskra náttúruverndarsamtaka sem náttúruverndarsamtök byggð á einstaklingsaðild. Verkefni NAUST hafa verið mörg og margskonar og hér er aðeins hægt að stikla á stóru í sögu samtakanna frá stofnun þeirra.

Aðdragandinn

Náttúruvernd og umhverfismál komust í sviðsljósið í vestrænni umræðu um sambúð manns og náttúru frá og með sjöunda og áttunda áratug 20. aldar þegar varnaðarraddir um náttúru- og umhverfisvá af mannavöldum náðu loks breiðari hljómgrunni. Það var orðið ljóst að maðurinn hafði gengið á auðlindir jarðar og spillt umhverfi. Náttúru- og umhverfisvernd komst á dagskrá,  samtök voru stofnuð í hennar þágu. Bækur voru skrifaðar og ráðstefnur haldnar, og var t.d. fyrsta ráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem helguð var umhverfismálum haldin í Stokkhólmi árið 1972.

Árin í kringum 1970 mörkuðu einnig þáttaskil í sögu náttúruverndar hér á landi með ýmsu móti. Barátta var háð gegn Laxárvirkjun með lóni sem sökkva átti Laxárdal og miðla úr Mývatni og gegn miðlunarlóni sem sökkva átti Þjórsárverum. Sjónarmið náttúruverndar höfðu betur í báðum tilvikum og Laxárdalur og Þjórsárver eru þess vegna enn meðal íslenskra náttúruverðmæta. Laxárdeilunni lyktaði einnig með þeim merka áfanga að sett voru sérlög um verndun Laxár og Mývatns. Annar stór áfangi var nýtt lagafrumvarp um náttúruvernd, samþykkt sem lög nr. 47/1971 og leystu fyrstu almennu náttúruverndarlögin hér á landi nr. 48/1956 af hólmi. Menntamálaráðuneytið fór sem fyrr með yfirstjórn náttúruverndarmála. Þau nýmæli voru í lögunum að stofnað var til náttúruverndarþings sem haldið yrði þriðja hvert ár. Hlutverk þess var að vera vettvangur fyrir umræðu og samráð um náttúruvernd. Fjalla skyldi um verndun náttúru á Íslandi og forgangsröðun brýnustu úrlausnarefna á því sviði. Sjö manns skipuðu Náttúruverndarráð, menntamálaráðherra skipaði formann en hin sex voru kosin á náttúruverndarþingi. Lögin kváðu einnig á um umgengni og aðgang almennings að náttúru landsins. Þá var enn fremur mælt þar fyrir um friðlýsingu náttúruminja og stofnun útivistarsvæða.

Aðrir áfangar á þessum tíma í sögu náttúruverndar var stofnun Landverndar (Landgræðslu- og náttúruverndarsamtaka Íslands) árið 1969, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi á (SUNN) sumarið 1970 og Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) haustið 1970.

Andi vitundarvakningar um náttúru- og umhverfisvernd sveif yfir vötnum. Evrópuráðið hafði lýst árið 1970 sérstakt baráttuár fyrir náttúruvernd.  Það var þó fyrirsjáanlegt að berjast þyrfti fyrir þeim málstað á öllum sviðum í sambúð manns og náttúru.

Í ávarpi undirbúningsnefndar að stofnun NAUST sem sent var til fjölmiðla að loknum fundi sem haldinn var á Hallormsstað 14. júní 1970 sagði m.a.:

  • Með náttúruvernd er stefnt að skynsamlegum samskiptum mannsins við umhverfið svo að það haldist lífvænlegt og náttúrulegum verðmætum sé ekki spillt að óþörfu. Þannig miðar náttúruvernd að viðhaldi lífrænna auðlinda með skiplegri og hóflegri nytjun þeirra.
  • Víða um lönd er nú vá fyrir dyrum vegna óbilgjarnrar umgengni mannsins við náttúruna. Mengin af ýmsu tagi ógnar lífríki á láði og í legi og þar með manninum sjálfum. Þessi þróun er óhagstæðust hjá þeim þjóðum sem við þéttbýli búa og lengst eru á veg komnar í tæknivæðingu.
  • Aðstaða okkar Íslendinga er um margt sérstæð á þessu sviði sem öðrum. Áður fyrr háði þjóðin harða og stranga baráttu fyrir tilveru sinni og gekk þá mjög á landgæðin. Enn hefur þeirri öfugþróun ekki eða fullu verið snúið við og nýjar hættur eru í uppsiglingu með breyttum atvinnu- og lífsháttum þjóðarinnar. Enn á sér stað mikil gróðureyðing víða um land og fiskistofnar við landið eru í hættu sökum ofveiði. Við margar verklegar framkvæmdir eru að óþörfu framin óbætanleg spjöll og umgegni manna í byggð og óbyggð er mjög ábótavant.
  •  Náttúruvernd gerist ekki af sjálfu sér eða með lagasetningu einni saman. Til að tryggja framgang náttúruverndarhugsjónarmiða þurfa allir, sem skilning og áhuga hafa á náttúruvernd, að leggja málstaðnum lið. Því höfum við sem að ávarpi þessu stöndum ákveðið að vinna að stofnun samtaka áhugamanna um náttúruvernd í Austfirðingafjórðungi. … Samtökin munu vinna að náttúruvernd á breiðum grundvelli í samræmi við lög um náttúruvernd og í samvinnu við alla þá aðila innan og utan fjórðungs sem láta sig náttúruvernd varða:
  • Við væntum þess að áhugafólk um náttúruvernd láti hið fyrsta skrá sig inn í samtökin. Við mælumst til þess við félög, klúbba, stofnanir og fyrirtæki að þau gerist styrktaraðilar samtakanna. „Tryggjum þannig að myndarlega verði staðið að náttúruvernd á Austurlandi í framtíðinni“.

Í undirbúningsnefnd að stofnun NAUST áttu sæti séra  Sigmar Torfason, Skeggjastöðum, Bakkafirði, Víglundur Pálsson bóndi Refsstað, Vopnafirði, Ingvar Ingvarsson bóndi, Desjarmýri, Borgarfirði, Sigurður Blöndal, skógarvörður, Hallormsstað, Erling Garðar Jónasson rafveitustjóri, Egilsstöðum, Oddur Ragnarsson skrifstofumaður, Seyðisfirði, Hjörleifur Guttormsson kennari, Neskaupstað, Hilmar Bjarnason skipstjóri, Eskifirði, Sigfús Kristinsson bifreiðarstjóri, Reyðarfirði, Jón Erlingur Guðmundsson sveitarstjóri, Fáskrúðsfirði, Petra Sveinsdóttir húsmóðir, Stöðvarfirði, Sigríður Helgadóttir húsmóðir, Staðarborg Breiðdal, Séra Trausti Pétursson prófastur, Djúpavogi, Egill Benediktsson bóndi, frá Þórisdal Lóni, Sigurður. Hjaltason sveitarstjóri Höfn í Hornafirði, Hálfdán Björnsson bóndi, Kvískerjum Öræfum.

Frumkvæði að tilurð og undirbúningsfundi nefndarinnar hafði Hjörleifur Guttormsson líffræðingur sem þá var kennari búsettur á Neskaupstað, síðar alþingismaður og ráðherra. Í bréfi því sem hann ritaði til að kalla ofangreinda einstaklinga til liðs kvaðst hann vera þess fullviss, „að náttúruverndarmálin fá ekki þann byr sem skyldi, nema áhugamenn í hverjum fjórðungi og innan einstakra byggðarlaga hefji með sér skipulegt samstarf.“

Í bráðabirgðastjórn, sem kosin var úr ofangreindum hópi á fundi undirbúningsnefndar að stofnun NAUST á Hallormsstað 14. júní 1970, voru Hjörleifur Guttormsson, Hilmar Bjarnason og Sigfús Kristinsson.

Stofnun NAUST

Stofnfundur Náttúruverndarsamtaka Austurlands var haldinn í barnaskólanum á Egilsstöðum 13. september 1970. Fundargestir voru um 50, en á annað hundrað manns höfðu þá skráð sig í samtökin. Hjörleifur Guttormsson var kjörinn formaður, varaformaður Völundur Jóhannesson, ritari Sigurður Blöndal, gjaldkeri, Sigfús Kristinsson, meðstjórnandi Hilmar Bjarnason og varamenn voru kjörin Sigríður Helgadóttir Staðarborg, sr. Þorleifur Kristmundsson Kolfreyjustað og Erling Garðar Jónasson Egilsstöðum.

Í bréfi sem Hjörleifur ritaði til Birgis Kjarans formanns Náttúruverndarráðs haustið 1970 sagðist hann vænta þess að samtökunum mætti auðnast að vinna að náttúruvernd á breiðum grundvelli og með árangursríkum hætti. Hann átti þá eftir að vera  formaður NAUST í heilan áratug, þ.e. frá 1970 til 1979 og setja mark sitt á starfsemi þeirra fyrsta spölinn.

Aðild að NAUST var tvenns konar í fyrstu, annars vegar bein aðild einstaklinga og hins vegar styrktaraðild. Félagssvæðið var stórt þegar í upphafi, þ.e. náði yfir allan Austfirðingafjórðung, og enn er það skilgreint sem svæðið frá Finnafirði að Lómagnúpi.

Hlutverk og markmið 

Hlutverk og markmið Náttúruverndarsamtaka Austurlands skyldi vera að vernda náttúrulegt umhverfi og stuðla að skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda. Samtökin ætluðu sér að vinna að þessum markmiðum með fræðslu, verndun, þekkingaröflun og með heimildasöfnun og rannsóknum. Enn fremur með athugun og upplýsingum varðandi hættur af mannvirkjagerð, notkun tilbúinna efna eða vegna annarra inngripa svo og með friðlýsingu náttúrufyrirbæra, sem æskilegt er að vernda sérstaklega. Auk þess að verndun atvinnu- og menningarsögulegra minja og á bætta aðstöðu fyrir almenning til að fræðast um landið og umgangast náttúruna án þess að valda á henni spjöllum.

Starf NAUST einkenndist lengi vel af öflugri starfsemi og umræðu um náttúruvernd og umhverfismál. Stjórn samtakanna bar uppi hitann og þungann af starfinu en auk þess voru starfandi nefndir um tiltekin málefni og verkefni. Nefndarkjör fór fram á aðalfundum. Félagar fyrstu 25 árin voru á bilinu 150-250 og allmörg fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir voru styrktaraðilar samtakanna. Stjórn NAUST var aðal burðarásinn í starfinu. Fyrstu 11 árin var hún valin úr hópi félaga af öllu Austurlandi og var formaður kosinn sérstaklega. Þetta breyttist á aðalfundi 1981 þegar gerð var sú breyting á lögum samtakanna að umdæmi þeirra var skipt í þrjú svæði, norður-, mið- og suðursvæði.

Á norðursvæði (svæði 1) voru Bakkafjörður, Vopnafjörður, Hérað, Seyðisfjörður og Borgarfjörður. Á miðsvæði (svæði 2) voru Austfirðir frá Mjóafirði til Breiðdalsvíkur. Á suðursvæði (svæði 3) voru Berufjörður og áfram allt að Skeiðarársandi. Fimm aðalmenn og fimm til vara af sama svæði skyldu skipa stjórn og skyldi hún skipta með sér verkum, þar með talið að kjósa sér formann. Einnig skyldi kjósa á aðalfundi a.m.k. þrjá fulltrúa af sitt hvoru hinna svæðanna. Stjórnin skyldi kosin á aðalfundi þriðja hvert á og stjórnarskipti fara fram sumarið eftir að náttúruverndarþing er haldið.

Á aðalfundi NAUST haustið 2005 var samþykkt að breyta lögum samtakanna á þann veg að kosið yrði um stjórnarmenn úr hópi félagsmanna á öllu starfsvæðinu í stað fyrri svæðisskiptingar samkvæmt lögunum frá 1981. Breytingarnar tóku gildi á aðalfundi árið 2006. Að baki bjó hve erfitt var orðið að fá fólk í stjórn samtakanna. Einnig var von stjórnar að þessi tilhögun við kosningu stjórnar framvegis myndi greiða fyrir starfsemi NAUST og þeim málefnum sem það ynni að. Núgildandi lög NAUST endurspegla sem fyrr áherslur samtakanna um verndar- og fræðslustarf á sviði náttúru- og umhverfisverndar, eða eins og segir um markmið NAUST að stuðla að verndun náttúrulegs umhverfis, svo sem landslags, steinda, jarðminja, jarðvegs, lofts, vatns, sjávar, plöntu- og dýralífs“, og að því að „náttúrulegar auðlindir verði nytjaðar skynsamlega, fólki til heilla í nútíð og framtíð.“

Útgáfa og fræðsla

NAUST sendi í fyrstu út bréf til félagsmanna en gaf svo út sérstakt fréttabréf frá og með árinu 1976. Það var sent félagsmönnum, styrktaraðilum og öðrum skyldum félögum og samtökum. Þar birtust ávörp formanna samtakanna, ýmis fróðleikur um náttúruvernd og umhverfismál á Austurlandi, helstu fréttir úr starfinu, samþykktir á aðalfundum o.fl. Opnuð var vefsíða árið 2011, á slóðinni http://nattaust.is, með fréttum og gögnum um starf samtakanna. Þess utan er að finna fjölda greina í blöðum og tímaritum eftir félagsmenn í NAUST um náttúruvernd og umhverfismál og skýrslur, umsagnir, greinargerðir og athugasemdir við lagasetningar og framkvæmdaáform, ekki hvað síst virkjunaráformin í kringum aldamótin 2000. Í þessu samhengi er einnig vert að nefna sérstök þemahefti helguð náttúruvernd og náttúrufræðslu, nánar tiltekið um Kárahnjúkavirkjun og áhrifasvæði hennar í Glettingi (des. 2001, ritstjóri Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur og félagi í NAUST.) og um Lagarfljót og Jökulsá á Dal (Jöklu) í Glettingi (vor 2002). Í þessum þemaheftum var lögð áhersla á að upplýsa lesendur um náttúrufar og landslag á þeim svæðum sem yrðu ekki söm eða hyrfu með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar.

NAUST gaf einnig út bæklinginn „Gengið með Gljúfrunum miklu“, um Hafrahvamma- og Dimmugljúfur, sumarið 2001, ásamt Félagi um verndun hálendis Austurlands.

Fundir 

Stjórnir NAUST héldu utan um starf samtakanna á stjórnarfundum sínum en einkennandi fyrir starfsemi Náttúruverndarsamtaka Austurlands um árabil, enda atriði í lögum samtakanna, var að aðalfundir voru haldnir víðsvegar á starfssvæði þeirra. Þar fóru saman venjuleg aðalfundardagskrá, fyrirlestrar, fræðsla og náttúruskoðun. Á fyrsta aðalfundinum 1971, sem haldinn var í Neskaupstað var hafið, ofveiði og mengun, aðalþema og flutti Ingvar Hallgrímsson fiskifræðingur um það fróðlegt erindi. Á annan aðalfundinn 1972 kom sem gestur Eysteinn Jónsson nýskipaður formaður Náttúruverndarráðs og efnt var til fjölmennrar ferðar út í Papey, sem samtökin vildu friðlýsa. Fyrsta aðalfundurinn á hálendinu var í Sigurðarskála í Kverkfjöllum sumarið 1977. Með því að halda aðalfund á öræfum vildi NAUST vekja athygli á því að „hálendið er ekki síður á dagskrá hjá náttúruverndarmönnum en blómlegar byggðir.“

Fleiri aðalfundir voru síðar haldnir í óbyggðum, m.a. í Snæfellsskála við Snæfell 1990 og 2000 og í Arnardal 1992.

Samstarf

NAUST hefur frá stofnun átt mikið og fjölbreytt samstarf um við einstaklinga, sveitarfélög, félagasamtök af ýmsu tagi og önnur náttúru- og umhverfisverndarsamtök, stofnanir og stjórnvöld. Náttúruverndarráð starfaði til 2002 en var þá lagt niður og við þeim málefnum tók Umhverfisstofnun. Samstarf NAUST við Náttúruverndarráð skipaði stóran sess allan þann tíma sem ráðið var til, og félagar í NAUST voru ítrekað kjörnir í ráðið. NAUST átti ætíð fulltrúa á Náttúruverndarþingum og þar voru lagðar fram fjölmargar tillögur í nafni samtakanna og hlutu margar þeirra brautargengi. Þegar fyrsta þinginu 1972 flutti Hjörleifur Guttormsson, fulltrúi NAUST á þinginu, tillögu um að stofna skyldi umhverfisráðuneyti, mál sem fyrst varð að veruleika 1990. NAUST var aðili að Sambandi íslenskra náttúruverndarfélaga (SÍN) á meðan það starfaði, þ.e.  frá stofnun 1975 þess fram á níunda áratuginn að SÍN  lognaðist út af. Af samstarfsverkefnum síðustu ára má nefna þátttöku fulltrúa NAUST í svæðisráði Vatnsjökulsþjóðgarðs, í umsögn um Rammaáætlun um nýtingu og verndun vatnsafls og jarðvarma, í ýmsum umsögnum um lög og reglugerðir; m.a. um stjórn vatnamála, veiðar á villtum dýrum, og náttúruverndarlög. Samtökin hafa einnig átt fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum stjórnvalda í samstarfi við önnur félög.

Friðlýsingar og skráning náttúruminja 

Fyrstu árin eftir stofnun voru lífleg á vettvangi NAUST, enda verkefnin þá  ærin á sviði náttúruverndar á Austurlandi. Þau fólust meðal annars í heimildasöfnun um stöðu náttúruverndarmála í Austfirðingafjórðungi, upplýsingasöfnun um það sem með miður hafði farið, fyrirhuguðum stórvirkjanaáformum og „hugsanlegum blindgötum í því sambandi“, og taka afstöðu til breytinga á lögum um náttúruvernd.

Fyrsta náttúruminjaskrá NAUST var gefin út árið 1973. Hún var Náttúruverndarráði til leiðbeiningar við útgáfu opinberrar náttúruminjaskrár og val svæða til friðlýsingar. Samtökin beittu sér áfram fyrir skipulegri skráningu sem skilaði sér inn í opinberu náttúruminjaskrána hjá Náttúruverndarráði.

Næsta útgefin skrá yfir náttúruminjar á Austurlandi sem NAUST studdi var skrá Helga Hallgrímssonar náttúrufræðings yfir náttúruminjar á Fljótsdalshéraði sem kom út 1991. 

Strax í upphafi starfsemi NAUST var lögð áhersla á friðlýsingu náttúruperla á Austurlandi. Hjörleifi sem formanni var árið 1971 falið að ítreka við Náttúruverndarráð að bregðast við erindi náttúruverndarnefndar Norður-Múlasýslu um friðlýsingu Hvannalinda. Einnig að samtökin beittu sér í héraði fyrir málinu í samráði við landeigendur, þ.e. eigendur Brúar í Efri-Jökuldal. Niðurstaðan varð að Hvannalindir voru friðlýstar árið 1973. Þær eru nú hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.

Samstarf um náttúruvernd á Austurlandi hélt áfram, þar sem komu við sögu auk NAUST, landeigendur, sveitarfélög og Náttúruverndarráð. Önnur svæði sem friðlýst voru á fyrstu starfsárum NAUST, sem náttúruvætti eða fólkvangar, voru Álfaborg á Borgarfirði eystra (fólkvangur), Díma í Lóni, Háalda í landi Sandfells í Öræfum, Silfurbergsnáman á Helgustöðum í Reyðarfirði og Teigarhorn við Berufjörð (1976).

Salthöfðafriðland varð til með friðlýsingu Salthöfða og Salthöfðamýra við Fagurhólsmýri í Öræfum (1977). Frumkvæði að friðun kom frá heimamönnum og var þetta fyrsta formlega friðun á votlendissvæði eystra, unnin í samstarfi sveitarstjórnar, landeigenda og NAUST. Friðlýsing Kringilsárrana vegna þýðingar hans sem burðarsvæði hreinkúa var mikilvægt skref í þágu verndar dýra og vistkerfis á öræfum.

Stofnun Friðlands á Lónsöræfum árið 1977, vegna náttúruverndar- og útivistargildis svæðisins, var gríðarstór áfangi í baráttu NAUST fyrir friðlýsingu náttúruverðmæta á Austurlandi. Tillaga um friðlýsinguna var fyrst skráð á blað árið 1972 í náttúruminjaskrá NAUST. Að baki lá ítarlegur undirbúningur formanns NAUST, og samvinna hans við landeigendur á Stafafelli og Brekku í Lóni. Friðlýsta svæðið tekur yfir Stafafellsfjöll norðan Skyndidalsár ásamt Kollumúla og Víðidal. Friðlýsingin heimilaði áfram hefðbundnar nytjar á þessum öræfum, veiði og beit.

Ennfremur yrði komið upp lágmarksaðstöðu fyrir ferðamenn og eftirliti á vegum Náttúruverndarráðs. Náttúruverndarráð samþykkti tillöguna árið 1975 og var gengið frá formlegum hliðum málsins í framhaldinu með rétthöfum umrædds landsvæðis.

Árið 1978 voru friðlýst svæði á Íslandi alls orðin 49 talsins, stór og smá. Þar af voru 14 á starfssvæði NAUST, þeirra stærst var þjóðgarðurinn í Skaftafelli og friðland á Lónsöræfum. Á náttúruminjaskrá voru það sama ár 150 staðir og svæði, sem Náttúruverndarráð taldi æskilegt að vernda og jafnvel friðlýsa síðar. Þar af voru 34 svæði á Austurlandi, sem NAUST hafði hvatt til friðlýsingar á. Þeirra stærst voru Kverkfjöll með Krepputungu, Loðmundarfjörður ásamt Víkum og Breiðamerkursandur með jökulminjum. Það munaði þannig um starf NAUST fyrsta áratuginn.

Fyrstu hugmyndirnar um að friðlýsa Vatnajökul birtust í náttúruminjaskrá NAUST árið 1973. Þar segir m.a. um Krepputungu og Kverkfjöll milli Kreppu og Jökulsár á Fjöllum: 
Hér er þeirri hugmynd hreyft, að svæði þetta myndi í framtíðinni þjóðgarð að viðbættu stóru svæði vestan Jökulsár á Fjöllum og gætu mörkin hugsast þannig: Lína frá ármótum Lindaár í Herðubreiðarlindum og Jökulsár vestur í hæsta til d Herðubreiðarfjalla (1094 m), þaðan suðvestur í Þríhyrning (1040 m) norðan Trölladyngju, þaðan í Bárðarbungu (2000 m), þaðan í hátind Kverkfjalla (1920 m) og austur með Jökulrönd að upptökum Kreppu. Einnig mætti íhuga að tengja svæðið um jökul þveran hinum stækkaða Skaftafellsþjóðgarði.

Innan þjóðgarðs af þessari stærð lægju geysifjölbreyttar jarðmyndanir svo sem Herðubreið, Trölladyngja og Kollóttadyngja, Dyngjufjöll með Öskju, Kistufelli og Urðarháls, sérstæðar gróðurvinjar eins og Herðubreiðarlindir og Hvannalindir, auk Krepputungu og Kverkfjalla, þar sem mætast ís og eimur í Hveradal.

Á Náttúruverndarþingi 1993 lagði Hjörleifur Guttormsson, sem fulltrúi NAUST á þinginu, til við Náttúruverndarráð, að Vatnajökull ásamt skriðjöklum yrði friðlýstur. Hann fylgdi þeirri hugmynd eftir 1998 á Alþingi með þingsályktunartillögu um fjóra jöklaþjóðgarða á miðhálendinu, Vatnajökulsþjóðgarð, Hofsjökulsþjóðgarð, Langjökulsþjóðgarð og Mýrdals- og Eykjafjallajökulsþjóðgarð. Tillagan hlaut víðtækan stuðning frá umsagnaraðilum en Alþingi lét nægja að lýsa yfir stuðningi við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, sem varð formlega að veruleika áratug síðar. Þjóðgarður sem taki yfir mestan hluta miðhálendisins er enn á borði Alþingis og bíður þar afgreiðslu.

Ekki náðist  að uppfylla öll markmið samtakanna um friðlýsingar. Má þar til dæmis nefna stórhuga ályktun á aðalfundi árið 1988. Beindi fundurinn því til stjórnar NAUST að þá þegar yrði skipuð nefnd til undirbúnings friðlýsingar Krepputungu, Fagradals og Grágæsadals, Hafrahvammagljúfurs, Vesturöræfa og hluta Brúardala og votlendis á Út-Héraði. Skyldi nefnd þessi vinna að málinu í samráði við heimamenn.

Í dag er Krepputunga friðuð innan Vatnajökulsþjóðgarðs, en hinar ofangreindar náttúruperlur njóta enn ekki skilgreindrar verndar, og hluti gljúfranna er nú horfinn undir vatn vegna Kárahnjúkavirkjunar sem og hluti Vesturöræfa.  Árið 1998 setti NAUST fram tillögu um Gerpisfriðland. Hlaut hún stuðning sveitarstjórna Neskaupstaðar og Eskifjarðar og var vísað til Náttúruverndar ríkisins, sem þá var enn starfandi. Var þar tekið undir tillöguna, sem fór í hendur Umhverfisstofnunar sem við tók árið 2002. Málið þokaðist ekkert áfram um árabil en nú er loks komin á það hreyfing, m.a. með stuðningi sveitarstjórnar Fjarðabyggðar. Svipað má segja um hugmyndir NAUST frá áttunda áratugnum um verndun votlendis og aðliggjandi fjalla á Úthéraði inn af Héraðsflóa. Með stuðningi sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs er að heita má komin í höfn formleg friðlýsing Stórurðar í landi Hrafnabjarga svo og jarðarinnar Unaóss allt út í Gripdeild ásamt með Heykollsstöðum norðan Selfljóts. Jafnframt vinnur nú starfshópur  á vegum sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs að athugun og tillögugerð um verndun votlendis og jarða inn af Héraðsflóa.

Umhverfismál og áhersla á auknar rannsóknir á náttúru og umhverfi

Náttúruverndarsamtök Austurlands hafa alla tíð leitast við að sporna við mengun og annars konar umhverfisspjöllum frá mannvirkjum, atvinnurekstri og öðrum umsvifum mannsins. Umhverfismengun vegna sorps, spilliefna og úblásturs gróðurhúsaloftegunda er líka á meðal þess sem NAUST hefur fjallað og ályktað um með kröfu um úrbætur. Einnig að stórauka þurfi náttúrufars- og umhverfisrannsóknir áður en ráðist verði í umfangsmiklar framkvæmdir við mannvirkjagerð.

Bætt aðgengi almennings að óspilltri náttúru og aukin náttúru- og umhverfisverndarvitund er meðal áhersluatriða NAUST og að samræma þurfi hagsmuni og áherslur útivistar og ferðaþjónustu og sjónarmið náttúruverndar um hreinlætisaðstöðu og skipuleg, þar á meðal um lagningu vega og göngustíga í óbyggðum með sem minnstum áhrifum á náttúru og landslag. Stefna beri að því að halda stórum svæðum utan við bílaumferð og taka hart á utanvegaakstri. Einnig hefur NAUST hvatt til bættrar og faglegrar landnýtingar í landbúnaði, við landgræðslu og skógrækt, og til aðgerða til að hamla gegn ofbeit og uppblæstri.  Áhersla hefur ætíð verið lögð á auknar rannsóknir á gróðurfari og dýralífi á Austurlandi, t.d. á hreindýrum og lifnaðarháttum þeirra.

Náttúruvernd í vörn á tímum stórvirkjanastefnu

Hugmyndir Orkustofnunar um stórvirkjanir norðan Vatnajökuls voru komnar formlega fram fyrir og um 1970. NAUST kynnti sér þau mál þegar í upphafi og hélt t.d. Jakob Björnsson þáverandi orkumálastjóri erindi á aðalfundi samtakanna árið 1973. Þar greindi hann frá fyrirliggjandi áformum um Austurlandsvirkjun sem gengu út á að færa saman vatn þriggja jökuláa; Jökulsár á Fjöllum, á Brú og í Fljótsdal, og a.m.k. yfirborðsvatn af Hraunum norðaustur af Vatnajökli. Eyjahvammar allir myndu hverfa, hluti Hafrahvammagljúfur myndu breytast og að hverfa að hluta og vatnsrennsli í Lagarfljóti breytast og aukast stórlega. Þessi áform urðu heyrinkunnari á seinni hluta áttunda áratugarins, þ.e. stór áform um virkjun Jökulsár á Dal með miðlunarlóni á Eyjabökkum („Fljótsdalsvirkjun“) og Jökulsár á Brú með stíflu í Hafrahvammagljúfri og risalóni („Hafrahvammavirkjun“) auk hugmynda um virkjun Kreppu og Jökulsár á Fjöllum. NAUST fylgdist með gangi mála og ítrekaði þörf á ítarlegum náttúrufarsrannsóknum áður en lengra væri haldið með svo stórtæk áform í austfirskri náttúru og að tekið yrði tillit til niðurstaðna þeirra rannsókna áður en lokaákvarðanir um framkvæmdir yrðu teknar.

Þegar ljóst var á tíunda áratugnum að af virkjunarframkvæmdum yrði í þágu Fljótsdalsvirkjunar og stóriðju á Reyðarfirði hófst hörð deila sem stóð allt frá því að virkjunaráformin lágu fyrir á Alþingi og þau samþykkt og allan framkvæmdatíma Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði, eins og þekkt er.

Stóriðjustefna stjórnvalda og sú umbylting á náttúru á stóru svæði á Austurlandi tók stóran skerf af starfi NAUST í viðleitni samtakanna til að fá sjónarmið náttúru-  og umhverfisverndar tekin með í reikninginn við ákvarðanir og framkvæmdir við virkjun á hálendinu norðan Vatnajökuls og álver á Reyðarfirði. Félagar í NAUST fylgdu andófi sínu eftir með skrifum og mótmælaaðgerðum, en einnig með umsögnum og kærum til stjórnvalda og síðast dómsmálum. Því síðastnefnda lauk árið 2005 fyrir Hæstarétti sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að Alcoa væri skylt að setja álbræðsluna á Reyðarfirði í umhverfismat. NAUST hafði ekki erindi sem erfiði í baráttu sinni gegn stórframkvæmdum og mannvirkjagerð á hálendinu norðan Vatnajökuls. Sá ósigur olli bæði  sárindum og þreytu í hug félagsmanna og í starfi NAUST fyrstu árin eftir að baráttan gegn Kárahnjúkavirkjun tapaðist.

Lokaorð

Það sést af starfi  NAUST og ályktunum aðalfunda samtakanna það sem af er þessari öld að næg verkefni eru á dagskrá hjá samtökunum nú og í næstu framtíð. Þau standa enn ótrauð vaktina um náttúru Austurlands enda ýmis brýn málefni þar sem betur má fara í sambúð manns við náttúru og umhverfi sem aðkallandi er að vekja máls á. Samtökin hafa á síðustu árum enn sem fyrr kallað eftir friðlýsingum og náttúruvernd í austfirskri náttúru en auk þess lagt áherslu á aðgerðir í þágu mengunarvarna, hreinsunar lands af skaðlegu drasli af mannavöldum, á borð við gamlar girðingar og fleira. Síðast en ekki síst kalla þau á sjálfbærni í verki og aðgerðir til að sporna gegn hamfarahlýnuninni. Eflaust eiga umhverfismál eftir að setja sterkan svip á starfsemi NAUST næstu árin enda um að ræða eitt brýnasta viðfangsefni mannkyns eins og nú horfir.

Heimildir

1. Hjörleifur Guttormsson, „NAUST 20 ára. Fyrstu spor Náttúruverndarsamtaka Austurlands“, Fréttabréf NAUST ágúst 1990, bls. 4–5, hér bls. 4.
2. Um sögu náttúruverndar og umhverfismála á 20. öld sjá t.d.: J.R. McNeill, Something New Under the Sun. An Environmental History of the Twentieth-Century world, New York: W.W. Norton & Company, 2001.
3. Vef. „Frumvarp til laga um náttúruvernd“, Alþingi.is, https://www.althingi.is/altext/123/s/0848.html, 21. jan. 2020.
4. Hjörleifur Guttormsson, „NAUST 20 ára, bls. 5.
5. Hjörleifur Guttormsson, „Náttúruvernd og verkefnin framundan“, Réttur 54:1 (1971), bls. 3–10; Helgi Hallgrímsson, „Þáttaskil í náttúruvernd á Íslandi um 1970 og starfsemi náttúruverndarsamtaka“, Náttúrufræðingurinn 79:1–4 (2010), bls. 29–36. 
6. Héraðsskjalasafn Austfirðinga (HérAust). Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST), Stofn 28/1-7. Gjörðabók I, 14. júní 1970 – 30. júlí 1974“, bls. 15–18.
7.  Sama heimild, bls. 19. 
8. Sama heimild, bls. 3–8. 
9.  Sama heimild, bls. 9–14.
10.  Sama heimild, bls. 23–26. 
11.  Bréf frá Hjörleifi Guttormssyni til Birgis Kjarans formanns Náttúruverndarráðs, dags. 15. sept. 1970, afrit í vörslu bréfritara (H.G.). 
12.  Fréttabréf NAUST 5. tbl. 1980, bls. 5.
13.  HérAust. NAUST, Stofn 28/1-7. Gjörðabók I, bls. 27–28; Vef. Náttúruverndarsamtök Austurland, nattaust.is, sótt 31. jan. 2020 af http://nattaust.is/?q=node/34. 
14.  HérAust. NAUST, Stofn 28/1-7. Gjörðabók I, bls. 27–30; Hjörleifur Guttormsson, „NAUST 20 ára, bls. 3.
15.  Hjörleifur Guttormsson, „NAUST bíða óþrjótandi verkefni. Brot úr 25 ára sögu Náttúruverndarsamtaka Austurlands“, NAUST. 25 ára afmælisrit Náttúruverndarsamtaka Austurlands, bls. 4–5, hér bls. 4.
16.  HérAust. NAUST, Stofn 28/1-9. Gjörðabók II, 17. ág. 1974 til 3. ág. 1982, bls. 182-185.
17.  HérAust. NAUST, Stofn 28/141-20, „Fréttabréf NAUST á vordögum 2006“, bls. 2.
18.  Vef. Náttúruverndarsamtök Austurland, nattaust.is, sótt 31. jan. 2020 af http://nattaust.is/?q=node/34.
19.  Fréttabréf NAUST 27. tbl. September 2002, bls. 5. 
20.  Helgi Hallgrímsson, Gengið með Gljúfrunum miklu. Lýsing gönguleiða meðfram Hafrahvammagljúfrum og Dimmugljúfrum á Jökuldal. Egilsstöðum: Náttúruverndarsamtök Austurlands NAUST og Félag um verndun hálendis Austurlands, 2001.
21.  Fréttabréf NAUST 2 tbl. 1977, bls. 1; Hjörleifur Guttormsson, „NAUST bíða óþrjótandi verkefni, bls. 4–5.
22.  Hjörleifur Guttormsson, „NAUST bíða óþrjótandi verkefni“, bls. 4. 
23.  Sjá: Fréttabréf NAUST 1976 til 2000; Héraust, Fundargerðir 1970–2006; Vef. Náttúruverndarsamtök Austurland, nattaust.is.
24.  Bréf frá Hjörleifi Guttormssyni til Eysteins Jónssonar, alþingismanns, dags. 16. sept. 1970, afrit í vörslu bréfritara (H.G.).
25.  Sjá t.d.: Fréttabréf NAUST, 7. tbl. 1982, bls. 7–8, og 9. tbl. 1984, bls. 6.
26.  HérAust. NAUST, Stofn 28/1-7. Gjörðabók I, bls. 39.
27.  HérAust. NAUST, Stofn 28/1-7. Gjörðabók I, bls. 48–49.
28.  Vef. „Hvannalindir – saga og náttúra“, Minjastofnun.is, sótt 28.2.2020 af http://www.minjastofnun.is/gagnasafn-/ahugaverdir-stadir/hvannalindir/.
29.  Fréttabréf NAUST 1 tbl. 1976, bls. 2.
30.  Fréttabréf NAUST 2. tbl. 1977, bls. 3.
31.  Vef. Umhverfisstofnun, Stjórnartíðindi B, augl. nr. 524/1975, sótt 4. ágúst 2020 af https://www.ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Nattura/Fridlysingar/Kringilsarrani,%20eldri.pdf. 
32.  Hjörleifur Guttormsson, „NAUST bíða óþrjótandi verkefni“, bls. 4.
33.  Hjörleifur Guttormsson, „Friðland á Lónsöræfum“, Kvískerjabók. Rit til heiðurs systkinunum á Kvískerjum, Höfn: Sýslusafn Austur-Skaftafellssýslu, 1998, bls. 204–208; Sami höf. „Lónsöræfi sem friðland og útivistarsvæði. Erindi flutt á fundi um Stafafellsfjöll Höfn í Hornafirði 18. september 1993“. hdr. í fórum höfundar; Sami höf, „Minnisblað um Friðland á Lónsöræfum“, 12 júní 2011, hdr. í fórum höf.
34.  Fréttabréf NAUST 1 tbl. 1976, bls. 2.
35.  Hjörleifur Guttormsson, „Friðlýsing á Lónsöræfum“, bls. 207. 
36.  Fréttabréf NAUST 3. tbl. 1978, bls. 3.
37.  HérAust. NAUST, Stofn 28/9-10. „Drög að náttúruminjaskrá fyrir Austurland,“, bls. 2.
38.  Hjörleifur Guttormsson, hdr. í fórum höf.
39.  Fréttabréf NAUST 12. tbl. 1988, bls. 2–3, og 14. tbl. 1989, bls. 2.
40.  Hjörleifur Guttormsson, hrd. í forum höf. 
41.  Sjá: Fréttabréf NAUST 1976 til 2000; Héraust, Fundargerðir 1970–2006; Vef. Náttúruverndarsamtök Austurland, nattaust.is. 
42.  HérAust. NAUST, Stofn 28/1-7. Gjörðabók I, bls. 148–149.
43.  Fréttabréf  NAUST 5. tbl. 1980, bls. 4.
44.  Unnur Birna Karlsdóttir, Þar sem fossarnir falla. Náttúrusýn og nýting fallvatna á Íslandi 1900–2008, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2010, bls. 157–190.
45.   Sjá: Fréttabréf NAUST 1990 til 2002; Héraust, Fundargerðir 1974–2006; Vef. Náttúruverndarsamtök Austurland, nattaust.is; „Athugasemdir stjórnar NAUST við skýrslu Reyðaráls h.f. „Álver í Reyðarfirði, Fjarðabyggð …““, dags. 28. júní 2001, og „Athugasemdir NAUST við skýrslu Landsvirkjunar: „Kárahnjúkavirkjun, allt að 750 MW …“, dags. 14. júní 2001, afrit í fórum Helga Hallgrímssonar; Sem dæmi um skrif félagsmanna í NAUST gegn stórvirkjana- og stóriðjuáformum á Austurlandi sjá t.d.: Helgi Hallgrímsson og Skarphéðinn G. Þórisson, „Hvað fer forgörðum með Fljótsdalsvirkjun“, Morgunblaðið 9. júlí 1998, bls. 42–43, og „Náttúruspjöll vegna Fljótsdalsvirkjunar, Austri 10. sept. 1998, bls. 4; Helgi Hallgrímsson; „Hundrað fossar í húfi“, Morgunblaðið 13. sept. 2001, og „Ísland markaðssett“, Morgunblaðið 22. sept. 2001; Um kæru gegn Alcoa og ríkinu fyrir hönd NAUST sá Hjörleifur Guttormsson, sjá: Hjörleifur Guttormsson, „Málið gegn Alcoa og ríkinu dómtekið“, afrit í fórum höf. 

Scroll to Top