Náttúruverndarsamtök Austurlands. Fugl á sundi, nattaust.is

Náttúruverndarsamtök Austurlands 50 ára. Litið um öxl

Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) fagna á þessu ári merkum tímamótum í sögu náttúruverndar á starfsvæði sínu sem spannar landsvæðið allt frá Finnafirði að Lómagnúpi. Óhætt er að segja að miklar umbreytingar hafi orðið í samfélaginu frá því að hinir framsýnu brautryðjendur náttúruverndar á Austurlandi stofnuðu samtökin fyrir 50 árum. Á engan er hallað þegar nafn Hjörleifs Guttormssonar er nefnt í þessu sambandi. Hann kom ekki aðeins að stofnun NAUST heldur hefur hann öðrum fremur stutt dyggilega við bakið á samtökunum allt frá stofnun þeirra til dagsins í dag og unnið ómælt og óeigingjarnt starf í þágu náttúruverndar mestan hluta ævi sinnar.

Náttúruverndarsamtök hafa á síðari árum tekið á sig víðtækari skyldur og málefni til umfjöllunar þar sem bregðast hefur þurft við fjölþættari vanda sem steðjar að umhverfinu en áður var. Nærtækast er að horfa til afleiðinga loftslagsbreytinga þar sem áhrifin eru víða komin fram með alvarlegum áhrifum á heilu vistkerfin. Í þessum efnum er heimurinn allur undir. Vísindasamfélagið hefur dregið fram með skýrum og óhrekjanlegum hætti staðreyndir sem sýna að aðgerða sé þörf svo að snúa megi af þeirri neikvæðu braut.

Náttúruverndarsamtök Austurlands hafa frá stofnun látið til sín taka á margvíslegum sviðum og nú sem fyrr bíða nýjar og stórar áskoranir. Þrátt fyrir ýmsar hindranir hafa samtökin haldið velli og látið brýn málefni til sín taka.

Almennt um stöðu umhverfismála

Það er gömul saga og ný að það eyðist sem af er tekið. Auðlindir okkar og náttúrugæði eru ekki óþrjótandi. En hvað þarf mikið til að vekja almenning nægilega sterkt til umhugsunar svo að hægt sé að taka á vandanum heildstætt? Getum við með heildstæðum aðgerðum, grænum lausnum og sannarlegri sjálfbærnihugsun að leiðarljósi breytt ríkjandi viðhorfum þeirra sem afneita þeirri vá sem steðjar nú að loftslagi okkar og náttúru almennt?

Allt eru þetta spurningar sem heimurinn stendur frammi fyrir og eftir því sem vandanum er ýtt lengra inn í framtíðina, þeim mun umfangsmeiri verður sú glíma sem bíður komandi kynslóða vegna afneitunar ráðandi afla á þeim aðstæðum sem nú eru til staðar.

Svarið við loftslagsvandanum er því auðvitað ekki að nýta sér vandann með fölsku yfirvarpi og réttlætingu á nýjum og stórum vatnsaflsvirkjunum í nafni sjálfbærrar orku og vinna um leið stórtæk náttúruspjöll og valda frekari mengun með stóriðjulausnum, undir því yfirskini að betra sé að framleiða ál með raforku úr vatnsafli fremur en kolum. Betur færi á því að við litum ekki til lægsta samnefnarans til að réttlæta eigin misgjörðir. Svarið er miklu fremur að nýta orkuna betur sem þegar er til staðar, draga úr mengandi iðnaði og hagnýta aðra þá tækni sem þegar liggur á borðinu við orkuframleiðslu til orkuskipta og stóraukinnar vistvænnar framleiðslu og draga jafnt og þétt úr mengandi stóriðjustarfsemi.

Það er komið að skuldadögum og á næstu árum verða orð og athafnir ráðamanna að fara saman. Samfélögin sem byggja þessa jörð í dag skulda því bæði umhverfi okkar og komandi kynslóðum svör og marktækar sýnilegar aðgerðir. Sýndarmennskuyfirvörp stjórnmálaleiðtoga heimsins á tyllidögum og til heimabrúks og friðþægingar skila ekki árangri, hvað þá yfirlýsingar hægri öfgamanna á borð við núverandi Bandaríkjaforseta sem telur sig hafinn yfir að hlusta á niðurstöður vísindasamfélagsins í fullkominni afneitun.

Ísland getur tekið að sér stórt hlutverk á heimsvísu í baráttunni við loftslagsmálin og náttúruvernd og leitt þar umræðuna ef samtakaviljinn er til staðar. En til þess þurfum við að byrja á því að taka til í eigin ranni.

Upplýst umræða í stað skoðanakúgunar

Sé horft inn á við á starfsvæði NAUST er virkilega þörf á upplýstri almennri umræðu um umhverfis- og náttúruvernd á Austurlandi. Almenningur þarf að fá réttar upplýsingar, ekki áróður sem dreift er af sérhagsmunaöflum þar sem stundargróðinn er raunverulega eini mælikvarðinn sem lagður er til grundvallar og réttlætingar á framkvæmdum sem valda dýrkeyptum náttúru- og umhverfisspjöllum á kostnað samfélagsins til langrar framtíðar.

Oftar en ekki er því haldið á lofti af sérhagsmunaöflunum að málstaður þeirra sem láta sér annt um umhverfi og náttúru sé reistur á öfgum. Okkar keppikefli sé einungis að vera á móti framförum! Já, framförum, svo undarlega sem það nú hljómar í eyrum þegar meintar framfarir hafa í raun ekki falist í öðru en afturhvarfi til ómennskrar og mengandi stóriðnaðarlausna sem eru miklu fremur skref marga áratugi aftur í tímann. Í stað þess að hagnýta sér orkuna í þágu nýsköpunar og framleiðslu á innanlandsmarkaði til sjávar og sveita höfum við afsalað okkur henni á silfurfati með tilheyrandi afleiðingum. Öfgatalið um náttúruverndarfólkið lifir reyndar enn og þessar klisjur munu efalaust hljóma áfram án röksemda sem fyrr. Þessa umræðu og palladóma um skoðanir náttúruverndarfólks þekkjum við frá tímum framkvæmda við Kárahnjúka. Staðreyndin er hinsvegar sú að talsmenn öfga og græðgi fengu sínu framgengt við Kárahnjúka þar sem menn lögðust á sveif með erlendu stórfyrirtæki með innistæðulausum fagurgala um nýtt og betra Austurland. Þá var þaggað niður í heilu samfélögunum með loforðaflaumi og yfirborðskenndum fyrirheitum jafnhliða hræðsluáróðri um að allt færi lóðbeint til helvítis ef við færðum ekki þessar fórnir á hálendi okkar fyrir Álver Alcoa.

Hér verður fólki sem beit á agnið ekki álasað fyrir að falla fyrir þeirri hörmulegu múgsefjunarpólitík sem var keyrð úr hófi yfir samfélögin hér eystra á þessum tíma. Nú hafa því miður þessir öfgar í þágu sérhagsmuna sprottið upp að nýju en með öðrum hætti.
Áfram skal gengið á fallvötnin og vatnasvið hálendisins. Nú er lagt upp með nýtt virkjanaáhlaup í sigtinu á sameiginlegar auðlindir okkar með aðkomu íslenskra spilagosa með erlenda fjárfesta handan við hornið sem ásælast orkulindir okkar í stórauknum mæli. Nú liggja sem sagt fallvötnin okkar óvarinn eins og hver önnur söluvara á markaði. Í heimi útvalinna sérhagsmunahópa, þar sem græðgisglampinn logar í augum, er hinsvegar ekki til nein endastöð. Þeir fá aldrei nóg og þeir halda áfram að mata krókinn á kostnað samfélagsins meðan ráðandi öfl innan stjórnsýslunnar halda áfram beygja sig í duftið fyrir þeim.

Tilburðir sérhagsmunaaflanna til skoðanakúgunar og hótana eru því enn til staðar þrátt fyrir það sem á undan er gengið. Leigupennar og handbendi fyrirtækja á einkamarkaði í orkugeiranum eru þegar byrjaðir að ráðast persónulega að þeim sem vilja að tekin verði upplýst og gagnrýnin umræða um stórtæk virkjunaráform á hálendi okkar. Þessi handbendi hinna nýju virkjunarsinna á svæðinu hafa nú í falsfréttaumræðunni uppi innistæðulaus gylliboð sem enginn fótur er fyrir og nú sem fyrr eru umhverfi og náttúra engin fyrirstaða. Samfélögin hér fyrir austan eru því miður enn og aftur að verða leiksoppar í skollaleik þar sem gengið er freklega gegn sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar á kostnað samfélagsins og komandi kynslóða.

Aðförin og eftirköstin

Þeir sem lýstu andstöðu við Kárahnjúkavirkjun voru eins og áður segir oftar en ekki kallaðir öfgasinnað náttúruverndarfólk. Mörg ljót orð voru látin falla í garð þessa hóps sem stóð ekki á sama um aðförina að hálendinu. Fagleg niðurstaða Skipulagsstofnunar var skýr í umhverfismati. Stofnunin lagðist gegn virkjun við Kárahnjúka, en þáverandi ráðherra fór hinsvegar gegn niðurstöðu hennar. Má þá auðvitað spyrja: Hvoru megin lágu þar öfgarnar? Það skrifar sig auðvitað sjálft! Þeir einstaklingar hér á Austurlandi sem höfðu sig þá í frammi í umræðunni gegn Kárahnjúkavirkjun urðu sannarlega fyrir aðsúgi, misstu jafnvel vinnu vegna skoðana sinna. Auk þess myndaðist gjá milli vina vegna ólíkra viðhorfa. Allt er þetta hörmuleg og dapurleg reynsla sem má ekki endurtaka sig.

Sárin eftir Kárahnjúkadeiluna og álversbyggingu hafa alls ekki gróið, þó fennt hafi yfir sumt. Náttúruverndarsamtök Austurlands fóru ekki varhluta af þessari deilu. Þegar hæst lét mátti litlu skeika að samtökin yrðu lögð niður. Gerð var gróf aðför að NAUST á aðalfundi þessara einu frjálsu félagasamtaka á svæðinu sem hafa náttúruvernd á sinni könnu. Í þessum aðgerðum opinberuðust einmitt öfgarnar og bolabrögðin sem verða talsmönnum stóriðju og óhóflegrar virkjunar til eilífrar skammar. Þessi grófa og öfgakennda aðför að lýðræðislega starfandi félagasamtökum innan svæðisins er einhver svartasti blettur á austfirsku samfélagi á síðari tímum. Handbendi sérhagsmuna töldu stöðu sína svo sterka að engin lög eða reglur næðu yfir þá. Í kjölfar þessarar árásar gegn tjáningarfrelsinu yfirgáfu sumir hverjir þennan lýðræðislega vettvang náttúruverndarsamtakana og landsfjórðunginn einnig í kjölfarið. Þeim var einfaldlega misboðið! Þó að Náttúruverndarsamtök Austurlands hafi haldið velli eftir þessa aðför þá markaði þessi atburður djúp sár um langa hríð og enn frekari ágreining þar sem aldrei hefur gróið um heilt.

Talsmönnum stórvirkjana í dag má því vera ljóst að það mun reyna verulega á samfélagið hér fyrir austan á næstu árum ef fyrirliggjandi virkjanaáform og aðför að síðustu fallvötnum okkar, meðal annars af Hraunum, ná fram að ganga aðeins 15 árum eftir gangsetningu Kárahnjúkavirkjunar.

Er sjálfbærni til skrauts?

Meginhugmyndin að baki sjálfbærri þróun, eða sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, er einföld og alls ekki ný af nálinni. Hún er tvíþætt: Í fyrsta lagi að ganga ekki óhóflega á gæði náttúrunnar heldur nýta auðlindirnar á hófsaman hátt þannig að þær nái að endurnýja sig. Sjálfbært skógarhögg miðar t.d. að því að planta nýjum trjám í stað þeirra sem höggvin eru.
Í öðru lagi felst í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda að þær skuli ekki nýttar á þannig að af hljótist mengun eða að umhverfinu sé spillt á annan hátt. Í þessu fólust meginmarkmið loftslagsráðstefnunnar í Río de Janeiro þar sem flestar þjóðir heims skrifuðu tímamótasáttmála.
Sjálfbærni er oftast skilgreind með eftirfarandi hætti. „Sjálfbær þróun er þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“

Í þessu ljósi má spyrja með sanngirni hversu vel meðvitaðir menn eru almennt sem skreyta sig gjarnan með sjálfbærnihugtakinu?

  • Hefur verið gerð hlutlaus og fagleg úttekt á sjálfbærni Kárahnjúkavirkjunar að meðtöldum áhrifum Hálslóns og áhrifa á Lagarfljót?
  • Er það sjálfbært að vatnsaflsvirkjanir okkar eru markaðsettar undir formerkjum sjálfbærni þrátt fyrir að staða þeirra sé gríðarlega misjöfn vegna umhverfisáhrifa?
  • Er það sjálfbær orkuframleiðsla þar sem stórum árfarvegum og rennsli er breytt með afleiðingum eins og Lagarfljót ber með sér þar sem mjólkurlituðu fljóti er breytt í mórauða eðju allt frá jökli út að Héraðsflóa?
  • Er sjálfbærni í því að aurinn sem hefur stóraukist vegna Hálslóns beri ógrynni af leireðju langt út á Héraðsflóa þar sem lífríki sjávar kann að bera varanlegan skaða af?
  • Getur það verið sjálfbært að gríðarmikið og óstöðvandi landrof sé við Hálslón?
  • Getur stóraukið leirfok frá rofbökkum Hálslóns flokkast sem sjálfbær afleiðing virkjunar?
  • Er það sjálfbært að Lagarfljót kólnaði um allt að 2 gráður við virkjun Kárahnjúka?
  • Er það sjálfbært að lífríki Lagarfljóts hefur beðið óafturkræfan skaða af virkjun Kárahnjúka þar sem fiskar, fuglalíf og gróður hafa horfið vegna kólnunar og litunar fljótsins?
  • Er það sjálfbær nýting á orkunni frá Kárahnjúkavirkjun ásamt aðliggjandi Hraunaveitu að hún renni öll til stórmengandi iðnaðar?
  • Er það sjálfbært samfélags- og efnahaglega fyrir Ísland þegar tekjuskatturinn af framleiðslufyrirtækinu og arðurinn er greiddur út í öðru landi og rennur þar með ekki inn í íslenska hagkerfið?
  • Er það sjálfbært samfélags- og efnahagslega fyrir Ísland að yfir 85% af raforkuframleiðslu landsins fari til orkufreks iðnaðar og fyrirtækja í erlendri eigu?
  • Er það í anda sjálfbærni að mjög svo mengandi stóriðja Alcoa Fjarðaáls skreyti sig með sjálfbærni undir léninu sjálfbærni.is?

Sjálfbærnin, sem fulltrúar stórfyrirtækja meðal annars á Íslandi skreyta sig oftar en ekki með, er því miður fullkomlega innistæðulaus blekkingarleikur í leit að bættri ásýnd og ímynd sem mengandi iðnaðarfyrirtæki telja sig þurfa á að halda. Það er því nákvæmlega ekkert sjálfbært við þá orkustefnu sem rekin hefur verið í landinu með þeim mengandi iðnaði sem því hefur fylgt.

Þess vegna er fráleitt að hefja stórfyrirtæki og einstakar virkjanir upp til skýjanna undir fölskum formerkjum sjálfbærni. Hinsvegar eru til vatnsaflsvirkjanir sem hafa verið byggðar í góðri sátt við umhverfi, náttúru og samfélög og er það sannarlega vel, en það er langsótt að tala um framkvæmdir, raforkuframleiðslu Kárahnjúkastíflu og nýtingu sem sjálfbært verkefni.
Sótsporið er raunverulega gríðarlegt allt frá upphafi til enda þessa umdeildasta verkefnis Íslandssögunnar.

Stefnulaus orku- og auðlindanýting

Það má öllum ljóst vera að vegið er að náttúrunni á mörgum sviðum á alþjóðavísu. Í þessum efnum getum við ekki skorast undan ábyrgð þótt umræðan hljómi á stundum þannig að við séum skörinni ofar en aðrar þjóðir vegna sérstöðu okkar með hreina loftið, fallvötnin, jarðhitann o.s.frv. Eitt er hinsvegar að hafa tækifærin, annað er það að kunna að hagnýta sér þau. Það er kaldhæðnislegt að í landi ótrúlegra náttúrugæða, þar sem auðlindir eru nánast við hvert fótmál, að við skulum á síðustu áratugum raunverulega hafa hagað okkur eins og ósjálfbjarga og vanþróuð ríki sem hafa afsalað sér náttúruauðlindum í ótrúlega stórum mæli. Í þessu sem öðru stækkar sífellt hlutur þeirra sérhagsmunahópa sem hafa smátt og smátt sópað til sín auðlindum jarðar.

Það sætir því furðu hve þrælslundin er mikil hjá jafn vel menntaðri þjóð og Íslendingum.
Að nokkru leyti má þó sjá viðleitni til ábyrgrar auðlindanýtingar en á öðrum sviðum hefur þjóðin hagað sér eins og ósjálfbjarga barn sem virðist þurfa að gera sömu misstökin aftur og aftur til að læra af þeim. Þar hafa engir mælikvarðar aðrir legið til grundvallar en skjótfenginn gróði.

Þar er sjaldnast um ábyrga framtíðarsýn að ræða eða virðingu fyrir komandi kynslóðum.
Öll erum við hinsvegar sammála um þörfina á raforku svo að halda megi uppi lífvænlegu samfélagi. Að virkja og fórna einhverju í staðinn er auðvitað hluti þess. Spurningin sem sjaldan staldrað við er, hvar eigum við að draga línuna. Eitt er að virkja fallvötnin, en annað hve mikið við þurfum á orkunni að halda og hvernig við eigum að nýta þessa auðlind með vitræna framtíðarsýn í huga. Hverjir eiga svo að njóta arðsins af þessari auðlind okkar sem er ennþá að langstærstum hluta í eigu þjóðarinnar? Eignarhaldið á orkunni og arðurinn af henni er hinsvegar ekki lengur í hendi sé horft til þeirrar þróunar sem er að eiga sér stað á orkumarkaði um þessar mundir. Hörð sókn einkafyrirtækja er nú inn á þennan markað. Umræðan og aðhaldið í þessum málaflokki er því gríðarlega mikilvægt um þessar mundir. Af þeirri ástæðu hafa Náttúruverndarsamtökin okkar stóru hlutverki að gegna og sannarlega höfum við í stjórn þeirra látið að okkur kveða.

Sótsporið er því miður ekki í nokkrum takti við þá hreinleikaímynd sem almennt er dregin upp af Íslandi. Svo alvarleg er staðan í okkar landi, sem á að vera barmafullt af svokallaðri endurnýjanlegri orku að við verðum að óbreyttu að gjalda það dýru verði með sótsektum þar sem við mengum helmingi meira á hvern íbúa heldur en að meðaltali í Evrópu.
Þrátt fyrir að allar viðvörunarbjöllur hringi virðist sem býsna stór hópur Íslendinga telji það ennþá góðan kost að halda óbreyttri stefnu og sólunda auðlindum okkar með áframhaldandi grófiðnaðarlausnum og enn dýpra sótspori. Ef ekki með mengandi iðnaði þá skal það a.m.k. heita orkufrekur iðnaður. Gagnaver hafa sprottið upp og taka nú þegar yfir 6% af heildarframleiðslu raforku hérlendis. Slíkt orkustefna er samkvæmt eðli máls ávísun á áframhaldandi víðtæk náttúruspjöll. Gróflega eru allir íbúar þessa lands auk íslenskra fyrirtækja aðeins að nýta um 15% af allri orkuframleiðslu í landinu. Þessa orku fær stóriðjan nánast á gjafverði en á sama tíma sendum við íbúum á köldum svæðum og grænni atvinnustarfsemi í himinháa reikninga sem sliga á stundum einstaka rekstaraðila sem standa þó fyrir fullkomlega sjálfbærum rekstri. Þessi orkustefna er bæði andfélagsleg og svívirðileg í landi sem á að geta verið sjálfbært að langflestu leyti.

Nokkrir ávinningar

Í umræðunni um meðferð og nýtingu auðlindanna hafa umhverfis- og náttúruverndarsamtök í landinu háð margar orrustur. Við höfum þó unnið fáeina sigra með friðlýsingum og verndarstefnu innan tiltekinna svæða, meðal annars með stofnun þjóðgarða og áþekkum verkefnum. Núverandi umhverfisráðherra hefur staðið sig sérstaklega vel í starfi þrátt fyrir töluvert mótlæti. Margt gott hefur gerst í umhverfismálum þótt stóra myndin sé enn bjöguð. Þar má nefna aðgerðir í friðlýsingum og gegn ofnotkun á plastumbúðum en síðast og ekki síst átak í orkuskiptum. Öllum þessum skrefum ber að fagna, en mest er auðvitað um vert ef þjóðinni tekst að sameinast um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

Eins ber auðvitað að fagna því að tekist hefur að friðlýsa nokkur svæði hér á Austurlandi á síðustu árum. Þar má nefna meðal annars að á Teigarhorni í Djúpavogshreppi hefur verið stækkað náttúruvætti og stofnaður fólkvangur, Blábjörg á Berufjarðarströnd friðlýst sem náttúruvætti og búsvæði tjarnaklukku á Hálsum friðlýst sem lið í að tryggja líffræðilega fjölbreytni. Þar var um að ræða fyrstu friðlýsingu smádýralífs á Íslandi. Einnig liggja fyrir góðar tillögur um fleiri friðlýst svæði á Austurlandi sem sérstaklega ber að fagna. Þar ber hæst tillögur frá Fljótsdalshéraði um Hrafnabjargarurð (Stórurð) og Unaós að Stapavík. Þá er Gerpissvæðið einnig til skoðunar sem væri sömuleiðis mikill fengur fyrir náttúruvernd á Austurlandi. Einnig eru einstakar náttúruperlur og stærri landslagsheildir sem væri mjög mikilvægt að friðlýsa. Má þar nefna Hengifoss í Fljótsdal og Stuðlagil á Jökuldal, en síðast og ekki síst væri mikill ávinningur í að friðlýsa Víknaslóðir sunnan Borgarfjarðar. Sú friðlýsing myndi án vafa jafnast á við Hornstrandir og yrðu líkast til enn vinsælli meðal annars í ljósi frábærra ferðaskála í eigu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Þau samtök eiga skilið sérstakt hrós fyrir að byggja upp af miklum eldmóði aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum sem gista þurfa fjarri alfaraleið.

Allar friðlýsingar sem gengið hafa eftir eru þess eðlis að engum dettur nú í hug að snúa til baka með hin friðlýstu svæði og þjóðgarða. Þau svæði eru einnig farin að skila þjóðarbúinu, meðal annars ferðaþjónustuaðilum, miklum fjármunum. Þessar friðlýsingar hafa margsannað gildi þess að tekin séu frá dýrmæt svæði í hverjum landshluta til upplifunar fyrir okkur sjálf, gesti og komandi kynslóðir. Nærsamfélagið og gestir okkar munu í stórauknum mæli sækjast eftir því að upplifa lítt eða ósnortin víðerni. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að halda áfram að taka frá til friðlýsinga svæði sem eru sannarlega vel til þess fallin. Í því liggja margvísleg sóknarfæri til framtíðar. Þá hefur það sannarlega sýnt sig nú í Covid-faraldrinum hversu eftirspurn eftir fjölbreyttum og vel skipulögðum útivistarsvæðum skiptir miklu máli. Þær aðstæður hafa leitt í ljós hve vel Íslendingar kunna að meta eigið land þegar á reynir.

Að lokum

Náttúran í allri sinni mynd er ein órjúfanleg keðja. Hún og lífríkið allt hefur sínum tilgangi að þjóna, þar sem einn hlekkur hefur áhrif á annan. Engum vafa er undirorpið að veikasti hlekkurinn í keðjunni er mannskepnan sjálf.

Þrátt fyrir að margt hafi færst til betri vegar með hliðsjón af auknum rannsóknum og tækniframförum þá hafa Íslendingar almennt ekki borið gæfu til að hlúa jafn vel að náttúru okkar og vera skyldi. Það er niðurstaðan og úr því þarf að bæta. Við eigum að vera vandari að virðingu okkar en svo að velta byrðunum og vandamálunum áfram á þær kynslóðir sem erfa munu landið.

Lifi NAUST.

Andrés Skúlason, formaður NAUST

Scroll to Top