Sögusagnir um aukna orkuþörf Íslendinga eru stórlega ýktar

Lagarfossvirkjun á Austurlandi. Orkuþörf er ofmetin. nattaust.is

Nýverið vakti aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) athygli með ályktun varðandi orkumál. Ítrekaðar umfjallanir halda því fram að orkuþörfin vaxi sem aldrei fyrr og nauðsynlegt sé að framleiða meiri orku vegna orkuskipta. Staðreyndin er hinsvegar sú að rafmagnsframleiðsla á hvern íbúa á Íslandi er áttföld miðað við aðrar Evrópuþjóðir. Raunar framleiðum við svo mikið af orku að um 80% af framleiddri raforku fara í stóriðju. Heimilin eyða um 5% orkunnar, sama magni og er eytt í að reka gagnaver þar sem stórtækur rafmyntagröftur á sér stað. Dreifikerfið er í lamasessi og þónokkur orka tapast á ferð um það.

Leit núna á netinu að kröfum til stóriðju á Íslandi um að spara raforku skilaði engum niðurstöðum en álverin sem eyða 64% orku sem framleidd er á landinu eyða meiri orku en annarsstaðar í heiminum líkt og kemur fram í grein Landverndar. Hægt væri að spara næstum 5% íslenskrar raforku með því eina að nýta hana jafn vel og álverin í Noregi. Stefna stjórnvalda virðist hinsvegar vera að framleiða meiri orku til að sömu djúpu vasarnir geti grætt enn frekar á kostnað náttúrunnar.

Vindorkuver eru hyllt sem endurnýjanlegur orkugjafi og er sóst eftir landsvæðum víðsvegar til að koma þeim upp. Loforð eru gefin um að staðirnir verði eins og ekkert hafi í skorist þegar verin verði tekin aftur niður. Það vekur upp vangaveltur um hvort fisléttar vindmyllur falli mjúklega af himnum ofan og fljúgi svo aftur sömu leið þegar þær eru orðnar ónothæfar? Jarðsvæðum verður í raun illa raskað við að flytja efni á viðkomandi stað. Þyngd myllanna hefur einnig mikil áhrif á jarðveg í kring, því til uppsetningar hverrar og einnar þeirra þarf bæði stórar undirstöður og kranaplan. Jarðvegur sem hefur verið raskað losar gróðurhúsalofttegundir og má spyrja sig hversu mörgum ferkílómetrum er raskað til að koma upp eins og 100 stykkjum af 250 metra háum vindmyllum? Eftir stendur síðan örplastmengað landsvæði þar sem fuglalíf hefur þurft að gjalda fyrir raforkuframleiðsluna til að halda uppi linnulausri neyslu og fita veski fárra.

Vatnsaflsvirkjanir eru okkar helsti orkugjafi og eru auglýstar eins og þær leiddu til lítillar sem engrar losunar gróðurhúsalofttegunda. Staðan er hinsvegar sú að ekki eru nægjanleg vísindaleg gögn til að geta slengt fram slíkri fullyrðingu. Í raun verður ákveðin losun við rekstur slíkra virkjana (vegna til dæmis rasks á jarðvegi og niðurbrots lífræns efnis í lónum) að ótaldri losun við uppbyggingu þeirra. Hér er ekki ætlunin að segja vatnsaflsvirkjanir afleitar, heldur einfaldlega benda á að þetta er ekki jafn hreint og grænt og oft er látið í veðri vaka. Óbyggð víðerni eiga undir högg að sækja enda í útrýmingarhættu, það væri því skammarlegt að virkja á slíkum stöðum og stuðla þannig að hrörnun líffræðilegrar fjölbreytni. Í dag er jafnvel leyft að byggja svokallaðar ,,smávirkjanir” sem framleiða allt að 9,9 MW án þess að sú framkvæmd sé tekin fyrir í rammaáætlun. Til samanburðar við þessa virkjunarstærð má taka Grímsárvirkjun sem framleiðir 2,8 MW, en hún dugði hér áður fyrr til að sjá mestöllu Héraðinu fyrir rafmagni áður en Lagarfossvirkjun bættist við árið 1974. Það er því svo að orkuþörf á Íslandi er stórlega ofmetin og mætti mæta henni einfaldlega með því að taka til í kerfinu.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að okkur ber skylda til komandi kynslóða að vernda náttúruna, því án hennar deyr það samfélag sem við þekkjum í dag. Verndun náttúrunnar er því ekki bara fyrir þau sem njóta hennar, heldur barátta um afkomu mannkyns. Við höfum verkfæri og þekkingu sem við þurfum til að snúa þessu við, grípum til þeirra og gerum rétt í garð barnanna.

Höfundur er Hólmfríður Sigurbjörnsdóttir, varamaður í stjórn NAUST, hún þakkar öðrum stjórnarmönnum gagnlegar tillögur við lokagerð textans.

Scroll to Top