Árin 2011-2012 voru nokkuð öflug í lífi NAUST. Ný stjórn hafði tekið við og sett sér stefnu um að auka hróður samtakanna að nýju og gera þau sýnileg í samfélaginu með viðburðum og fræðslu. Meðal fyrstu verkefna nýrrar stjórnar var að koma upp vefsíðu samtakanna nattaust.is. Listamaðurinn Jón Baldur Hlíðberg gaf NAUST leyfi til að nota myndir sínar af einkennisjurt og dýri Austurlands, Bláklukkunni og Hreindýrinu, sem alla tíð síðan hafa skreytt síðuna. Haldnir voru fræðslufundir m.a. um stjörnuskoðun og norðurljósaljósmyndun.
Á árinu áttu nokkur málefni hug og hjarta stjórnar. NAUST fór í herferð fyrir bættu viðhaldi girðinga en ónýtar girðingar og víradræsur á víðavangi höfðu orðið mörgum hreindýrum kvalafullur dauðdagi. Náðu samtökin töluverðri athygli almennings og fjölmiðla og má segja að umtalsverður árangur hafi náðst í bættri girðingamenningu. Þá skoraði NAUST á stjórnvöld að stöðva dráp á friðuðum fuglum en slíkt var og er því miður enn við líði og varðar heiður allra veiðimanna að slíkt sé stöðvað. Þá hvatti NAUST til þess að koma í veg fyrir umfangsmikla eggjatínslu nýbúa úr öðru menningarumhverfi í móum og melum ekki hvað síst á heiðargæsaeggjum með fræðslu. NAUST hvatti að vanda til friðlýsingar Úthéraðs og Húseyjar með hefðbundnum nytjum en innan þess svæðis er m.a. að finna Dyrfjöll og Stórurð. Því samhliða var tímaritið Glettingur tileinkað Dyrfjöllunum og framtíðarsýn um náttúrugarð en formaður NAUST sat í ritnefnd og ritaði greinar í blaðið.
Hæst reis starfsárið án efa í metnaðarfullri vorráðstefnu NAUST á Djúpavogi í júní 2011 undir yfirskriftinni „Náttúrvernd og skipulag“. Ráðstefnuna setti þáverandi umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir. Þar var sjónum beint að mikilvægi náttúruverndar í hinu byggða umhverfi fyrir andlega sem líkamlega heilsu íbúa, lýðheilsu. Á mikilvægi sjálfbærni og þess græna í skipulagi þéttbýlis og hönnun sem hvetji til hreyfingar og náttúruupplifunar. Í öðrum hlutanum var til umfjöllunar náttúruvernd sem forsenda atvinnusköpunar m.a. í skapandi greinum, ferðaþjónustu, og vistvænni matvælaframleiðslu í sátt við umhverfið. Í lokin var umræða um stöðu náttúrverndar og framtíðina. Ráðstefnan var vel sótt enda viðfangsefni fjölbreytt.
Hápunktur ráðstefnunnar var hins vegar þegar Hálfdáni Björnssyni, stofnfélaga í NAUST, var veitt Bláklukkan, heiðursviðkenning NAUST fyrir störf í þágu náttúruverndar og náttúrvísinda á Austurlandi. Í þetta sinn var verðlaunagripurinn Bláklukkan þó heiðlóa því listakonunni Rósu Valtingojer hafði reynst illmögulegt að skapa glæsilega bláklukku, að eigin mati. Hálfdán, sem lést árið 2017, vann ötullega, líkt og systkini hans frá Kvískerjum, að náttúrufarsrannsóknum. Hálfdán var einn síðasti alþýðufræðimaður landsins, þekktur fyrir rannsóknir á fuglum og skordýrum og meðhöfundur að ritrýndum greinum í virtum fræðiritum. Hálfdáni þótti vænt um viðurkenninguna. Minningin um Hálfdán yljar um hjartarætur. Í móttökunni í ráðstefnulok smakkaði hann í fyrsta sinn skelfisk, krækling og þótti merkilegt enda enginn skelfiskur á kvikri sandströndinni í Öræfasveit. Tók Hálfdán með sér nokkra kræklinga heim á Kvísker til að gefa Helga bróður sínum að smakka.
Þetta ár, 2011, fagnaði Háskóli Íslands hundrað ára afmæli. Þótti stjórn NAUST því við hæfi að skólinn sæmdi Hálfdán heiðursdoktorsnafnbót en því miður sá skólinn sér ekki fært að verða við þeirri ósk. Fannst formanni NAUST á þessum tíma það sárt hversu lítt var sinnt um svo merkan náttúruvísindamann.
Lokaverkefni starfsársins 2011 var styrkur frá umhverfisráðuneyti til að fara í skóla fjórðungsins og koma náttúruvernd inn í námsefni á miðstigi þar sem börnum væri gerð grein fyrir því hversu samofin vellíðan þeirra og framtíð er því hversu vel tekst að vernda náttúruna til frambúðar, til að nýta og njóta. Markmiðið var að fá börnin til að verða litlir náttúruvísindamenn. Því miður höguðu forlögin því þannig að bæði formaður og varaformaður fluttu úr fjórðungum áður en verkefnið kom til framkvæmda. Það er þó ekkert því til fyrirstöðu að NAUST taki sér hlutverk í umhverfis- og náttúruverndaruppeldi skólabarna á Austurlandi því þeirra er framtíðin.
Ásta Þorleifsdóttir formaður og Rósa Björk Halldórsdóttir varaformaður NAUST 2011-2012