Um landgræðslu og gróðurvernd

landgræðsla og gróðurvernd, nattaust.is

Aðalfundur NAUST 1974 fagnar því átaki, sem ákveðið er að gera í landgræðslu og gróðurvernd á næstu 5 árum og væntir að það verði aðeins fyrsti áfangi á bættri sambúð okkar við landið.

Fundurinn telur nauðsynlegt að haga aðgerðum á landgræðslu þannig, að með vissu horfi til varanlegra landbóta, og því verði í fyrstu lögð rík áhersla á undirstöðurannsóknir og markvissar tilraunir, þar sem reynsla er ekki þegar fengin.

Fundurinn varar við þeirri stefnu að dreifa áburði, einkum köfnunarefni, á gróinn úthaga, nema að undangengnu mati sérfróðra manna í hverju tilviki, og um leið sé tekin ákvörðun um að viðhalda ræktun á þessum svæðum til langframa.

Beitarræktun fyrir almannafé er því aðeins réttlætanleg að um leið verði dregið skipulega úr beit á ofsetnum úthaga, og uppblásturssvæði algjörlega friðuð fyrir beit um lengri tíma.

Fundurinn leggur áherslu á skógvernd til útivistar sem víðast á Austurlandi, auk ræktunar nytjaskóga á Upp-Héraði og beitarskóga í tilraunastigi á afmörkuðum svæðum.

Æskilegt er, að við hlið gróðurverndarnefnda starfi vistfræðimenntaðir sérfræðingar að gróðurvernd í hverjum landshluta, og myndi þeir tengilið milli búnaðarsambanda og Landgræðslu ríkisins.

HérAust. NAUST, Stofn 28/1-9. Gjörðabók II, 17. ág. 1974 til 3. ág. 1982, bls. 15.

Scroll to Top