Um verndun og skipulega nýtingu hálendis og óbyggða

hálendi, öræfi, náttúruvernd, Vesturöræfi, nattaust.is

Aðalfundur Naust 1977 vekur athygli á mikli gildi íslenskra öræfa og óbyggða fyrir þjóðina til útivistar og ferðalaga til viðbótar við hefðbundin not til beitar og veiði og aðra hagnýtingu, ekki síst í sambandi við orkuframleiðslu.

Stóraukin og fjölþætt not af hálendi landsins og sívaxandi umferð um það á vélknúnum tækjum kalla á skipulegar aðgerðir til verndar viðkvæmri náttúru þess og landslagi. … Aðalfundur Naust telur, að til viðbótar þeim skrefum sem stigin hafa verið, sé æskilegt að Alþingi setji sem fyrst rammalöggjöf um verndun og skipulagsskyldu óbyggðra svæða, og þá ekki síst á hálendi ofan tiltekinna marka. Jafnframt verði valin úr og friðlýst verðmætustu svæðin með tilliti til jarðmyndana og lífríkis, eins og þegar er byrjað á.

Liður í skipulagi í óbyggðum þarf ekki síst að verða stefnumörkun fram í tímann um nauðsynlegt vegakerfi, akvegi og slóðir, og að slíkar umferðarleiðir verði greinilega merktar og haldið við með skipulegum hætti hliðstætt vegakerfi í byggð. Óheimilt verði að aka utan slíkra merktra slóða að nauðsynjalausu. Þá telur fundurinn það æskilegt markmið að halda nokkrum stórum svæðum veglausum með öllu og varast beri að leggja akvegi inn á viðkvæm gróðurlendi til fjalla og koma upp dvalaraðstöðu á litlum gróðurvinjum.

Fundurinn hvetur til að greitt verði fyrir gönguferðum um óbyggðir með leiðbeiningum og öryggisbúnaði, svo sem með því að koma upp skálum af hæfilegri stærð við gönguleiðir og göngubrúm yfir viðsjárverð vatnsföll. Naust þakkar Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands fyrir frumkvæði að útgáfu korta um gönguleiðir austanlands og væntir framhalds á slíkri útgáfu.

Hófleg nýting afrétta til beitar er mál, sem varðar þjóðina alla og aðalfundur Naust hvetur eindregið til að tekin verði upp ítala sem víðast í afréttarlöndum í samræmi við niðurstöður rannsókna á beitarþoli og ástandi gróðurlendis á einstökum afréttum.

Vegna hugmynda um stórfelld orkumannvirki og vatnsmiðlanir í þeirra þágu á hálendinu, m.a. norðan Vatnajökuls, hvetur fundurinn til alhliða skoðunar á afleiðingum slíkra framkvæmda áður en langt er komið undirbúningi, bæði að því er varðar orkuframleiðslu og áformaða orkunotkun, og þeir kostir verði látnir sitja fyrir, er minnstri röskun valdi á náttúru landsins og félagslegu umhverfi.

HérAust. NAUST, Stofn 28/1-9. Gjörðabók II, 17. ág. 1974 til 3. ág. 1982, bls. 111-114.

Scroll to Top