Úr ályktun aðalfundar NAUST 18. mars, 2023. Ályktun um virkjanir:
NAUST hvetur til almennrar umræðu um orkumál og áform um aukna orkuvinnslu á Austurlandi.
Forsenda þess að ráðast í nýjar virkjanir er að fyrir liggi hver raunveruleg þörf sé samhliða mati á orkudreifingu og orkunýtingu. Það er óásættanlegt að fórna náttúruperlum og víðerni auk þess að raska viðkvæmu jafnvægi í umhverfinu án þess að brýna nauðsyn beri til.
Í þessu sambandi kallar aðalfundur NAUST eftir að endurskoðaðir verði allir áhrifaþættir svokallaðra „smávirkjana“ allt að 9,9 MW. Umhverfisáhrif og umfang virkjana innan þessa stærðarflokks eru afar breytileg eftir staðháttum. Því eru megavött ómarktækt viðmið.
Náttúruverndarsamtök Austurlands gera kröfu um að allar nýjar virkjanir fari í umhverfismat og inn í rammaáætlun og að undanþágur verði aðeins veittar í tilvikum minniháttar virkjana til heimilisnota og smærri atvinnurekstrar til sveita. Stærsta fyrirhugaða vatnsaflsvirkjunin á Austurlandi um þessar mundir er virkjun Arctic Hydro á Sviðinhornahraunum og í Hamarsdal. NAUST hvetur sérstaklega til friðunar þeirra óbyggðu víðerna auk annarra sem eftir eru í fjórðungnum.
Enn fremur varar aðalfundur NAUST við stórtækum áformum um vindorkuver á starfssvæði félagsins. Vindorkuver spilla landslagi og hafa neikvæð áhrif á fuglalíf og vistkerfi auk þess að valda sjón- og hávaðamengun.