Árið 2020 hófst verkefni sem snýr að vöktun verndarsvæða og annarra svæða sem eru undir álagi ferðamanna. Sumarið 2021 sinnti Náttúrustofa Austurlands (NA) vöktun á sex svæðum á Austurlandi og gerði forkönnun á fjórum. Svæðin sem voru heimsótt í sumar voru Fólkvangur Neskaupstaðar, Hólmanes, Hvannalindir, Stórurð, Stuðlagil og Laugarvalladalur. Forkönnun var unnin við Fardagafoss, Ysta-Rjúkanda, Teigarhorn og Helgustaðanámu. Tilgangurinn með forkönnun var að fá gróft mat á ástand viðkomandi svæðis og meta þörfina á frekari vöktun svæðisins.
Ekki var talin ástæða til að meta aftur sömu göngustíga í ár þar sem ástand þeirra var metið nokkuð ítarlega á síðasta ári. Þar af leiðandi voru teknir fyrir aðrir göngustígar í göngustígakerfum svæðanna og gögnum safnað um ástand stíga, hentistíga, skemmdir og helstu álagssvæði. Einnig voru settir út gróðurreitir í Stuðlagili og Hvannalindum, úttekt gerð á jarðhitavistgerðum í Laugarvalladal og varpárangur gæsa metinn í Stuðlagili. Gögnum var skilað í gagnagrunn NÍ og ljósmyndum var einnig skilað inn í FotoWare gagnagrunn NÍ.
Hér er lýst úttekt á svæðunum tíu á Austurlandi sumarið 2021.
https://drive.google.com/file/d/1eVNrBeG4NVz6kl2Xdkatb2lUJzgQCF7i/view